Jafnrétti hjá kolbítum

Greinar

Sjálfstæðismenn eru góðir við konurnar sínar. Þeir punta með þær og leyfa þeim að vera fundarritarar og jafnvel fundarstjórar. Raunveruleg völd eru hins vegar hlutverk karla að mati forustuliðs stærsta stjórnmálaflokks landsins. Ráðherrar skulu til dæmis vera karlar.

Þegar skáka þarf karli í sparistöðu, sem þingmenn hafa gert að kvennastarfi, geta komið upp sérkennileg vandamál. Til dæmis hefur komið í ljós, að staða forseta Alþingis er orðin að láglaunastarfi sem kvennastarf. Því þarf að breyta, þegar fyrirvinna fær stöðuna.

Forustumenn stjórnarflokkanna gera í alvöru ráð fyrir, að laun forseta Alþingis verði hækkuð um tugþúsundir króna á mánuði, þegar Ólafur G. Einarsson tekur við starfinu af Salóme Þorkelsdóttur. Það er lýsandi dæmi um stöðu íslenzkra jafnréttismála árið 1995.

Bent hefur verið á, að Salóme geti vegna þessa kært launakjör sín sem forseti Alþingis til jafnréttisráðs og jafnvel fengið Ólafslaun afturvirkt. Það væri verðugur minnisvarði um stöðu Sjálfstæðisflokksins í jafnréttismálum, ef hún léti verða af svo sjálfsagðri kæru.

Enn broslegra væri, ef hún kærði ekki jafnréttisbrotið, en það mundi hins vegar gera forveri hennar, Guðrún Helgadóttir. Þar með væri Salóme búin að kyngja þeirri skoðun Sjálfstæðisflokksins, að konur séu körlum óæðri, enda séu þær ekki og eigi ekki að vera fyrirvinnur.

Viðhorf Sjálfstæðisflokksins til kvenna eru gamalkunn og koma því fáum á óvart. Þær mega vera með upp á punt, en þegar til kastanna kemur, gilda klisjur á borð við þá, að ekki beri að ráða konu, bara af því að hún sé kona. Að mati flokksins eru karlar hæfari en konur.

Þessi augljósa staðreynd hefur hins vegar komið á óvart ýmsum konum í Sjálfstæðisflokknum. Þær hafa sennilega tekið trú á kosningaáróður flokksins og ekki áttað sig á, að áróður er bara aðferð til að ná í atkvæði og halda atkvæðum, en er að öðru leyti alveg marklaus.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins til kvenna sem puntudúkka á sér sagnfræðiskýringar. Flokkurinn er til dæmis afar íhaldssamur og utangátta gagnvart umheiminum og breytingum, sem þar eru að gerast. Hann er til dæmis andvígur auknu Evrópusamstarfi Íslendinga.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins, einkum ráðherrarnir, eru undantekningarlítið lögfræðimenntaðir menn, sem ekki hleyptu heimadraganum á menntabrautinni. Þeir hafa ekki dvalizt langdvölum í útlöndum og eiga til dæmis afar erfitt með að tjá sig á erlendum tungum.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins eru sveitamenn í alþjóðlegu samhengi, að minnsta kosti þegar þeir eru bornir saman við ráðamenn annarra flokka. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins hafa farið að mestu á mis við ýmsa strauma í útlöndum. Þeir eru hálfgerðir kolbítar.

Þetta hefur stuðlað að vandræðalegri sambúð Sjálfstæðisflokksins við ýmis sjónarmið, sem hafa mótað hægri menn og jafnaðarmenn í útlöndum. Nýir straumar í hagmálum, svo sem markaðshyggja, hafa lítil áhrif haft í flokknum. Sama er að segja um jafnréttismálin.

Lögfræðingunum, sem ráða Sjálfstæðisflokknum, finnst, að konur eigi að vera fínar í tauinu. Þær eru ekki taldar eins hæfar og Björn Bjarnason, en mega rita fundargerðir og jafnvel stýra fundum. Þær mega vera lögfræðimenntaðar, en eru ella taldar grunsamlegar.

Ráðherraval Sjálfstæðisflokksins og launamál forseta Alþingis eru góð dæmi um, að jafnréttismál eru flokknum lokuð bók, hvað sem hann segir í kosningaáróðri.

Jónas Kristjánsson

DV