Stjörnuhröp í stjórnmálum

Greinar

Viðurkenndum stjórnmálaforingjum á Íslandi hefur fækkað úr þremur í tvo við kosningar og stjórnarskipti á þessu vori. Formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tróna nú einir á tindi skoðanakönnunar DV um vinsældir og óvinsældir íslenzkra stjórnmálamanna.

Vinsældir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hafa aukizt og óvinsældir þeirra minnkað svo, að þær eru vart mælanlegar. Einkum á það við um Halldór, sem á sér fáa óvildarmenn í hverri könnuninni á fætur annarri. Hann hefur 23% vinsældir og 0,5% óvinsældir.

Stjörnuhrap skoðanakönnunarinnar er hjá formanni Þjóðvaka, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var áður annar vinsælasti stjórnmálamaðurinn, næst á eftir Davíð Oddssyni. Staða hennar hefur gerbreytzt til hins verra. Nú er hún orðin meðal óvinsælustu stjórnmálamannanna.

Í janúar í vetur hafði Jóhanna 16,2% í plús og 4,0% í mínus. Nú er plúsinn kominn niður í 2,3% og mínusinn upp í 7,5%. Aðeins Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru óvinsælli en hún. Þetta er mesta stjörnuhrapið frá upphafi kannana af þessu tagi.

Breytingar á vinsældum Davíðs, Halldórs og Jóhönnu benda til, að fólk styðji sigurvegara, en ekki þá, sem bíða ósigur. Jóhanna var allt síðasta kjörtímabil vinsæl, fyrst fyrir andóf í þáverandi ríkisstjórn og síðan sem formaður nýs stjórnmálaflokks með mikið fylgi á tímabili.

Þegar Þjóðvaki náði ekki árangri í kosningunum, hrundu vinsældir Jóhönnu. Henni dugði ekki að hafa stundað vinsælt andóf í ríkisstjórn og hafa stofnað eigin flokk, sem um tíma náði yfir 20% fylgi í skoðanakönnunum. Að leikslokum var hún afskrifuð sem pólitískt afl.

Hefð virðist vera fyrir því, að vinsældir aukist og óvinsældir minnki hjá stjórnmálamönnum, sem annaðhvort vinna kosningasigur eða komast í ríkisstjórn og helzt hvort tveggja, og að þessu sé öfugt farið með hina, sem tapa í kosningum eða komast ekki í ríkisstjórn.

Fall Jóhönnu er hins vegar mun meira en venjulegt má teljast. Sennilega endurspeglar það væntingar, sem hafa brugðizt. Skiptir þá engu, hvað telja má sanngjarnt. Ósigur í einum kosningum virðist nægja til að tvístra stuðningsmönnum og hrekja þá á flótta.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sigið úr fjórða sæti vinsældalistans í það sjötta. Sennilega endurspeglar það lélegt gengi Kvennalistans í Reykjavík, sem var áður helzta vígi hans. Eru þó vinsældir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur yfirgnæfandi meiri en óvinsældirnar.

Kvennalistinn skaðaðist við að fórna Ingibjörgu í þágu Reykjavíkurlistans í borgarstjórn. Við það varð Kvennalistinn í Reykjavík að höfuðlausum her. Á toppnum er þar afar litlaus þingmaður, sem af augljósu dómgreindarleysi kenndi borgarstjóra að nokkru um sínar ófarir.

Alþýðubandalagið losnar við Ólaf Ragnar Grímsson sem formann í haust og getur þá byrjað að taka þátt í samstarfi flokka. Enn er tómt mál að tala um samstarf milli flokka með Alþýðubandalagið innanborðs, af því að fáir þora að reyna að vinna með formanni þess.

Óvinsældir Ólafs Ragnars eru miklar og vaxandi, bæði meðal hugsanlegra smstarfsaðila í öðrum flokkum og meðal almennings, svo sem skoðanakönnunin sýnir. Sérkennilegt er, að helzti baráttumaður vinstra samstarfs skuli um leið vera helzti þröskuldur þess.

Undantekning á reglunni um auknar vinsældir sigurvegara er svo Finnur Ingólfsson ráðherra, sem á fáum vikum hefur lyfzt úr engu í fjórða sæti óvinsælda.

Jónas Kristjánsson

DV