Ýmis mathús hafa verið í kjallaranum á Lækjargötu 6b, andspænis Menntaskólanum í Reykjavík. Nú er þar Messinn, sem segist vera sjávarréttastaður. Samt ekki með neinn fisk dagsins. Mest verkaðir réttir, franskt bouillabaisse fisksúpa, franskur ratatouille fiskigrautur og couscous Norður-Afríku, auk íslenzks fiskiborgara og plokkfisks. Ég prófaði allt of gamla, stinkandi rauðsprettu, borðaði meðfylgjandi kartöflur, tómata og klettasalat. Rauðspretta eldist hratt og er vandmeðfarin á mathúsum. Hefði betur valið eldisbleikjuna, hún geymist lengur. Já, eða saltfiskfroðuna. Innrétting hugguleg og þjónusta frambærileg.