Komin er niðurstaða athugunar á möguleikum frísvæðis á Íslandi. Þar kemur fram, að óraunhæft sé að tala um slíkt svæði á Íslandi. Stingur það í stúf við fyrri bjartsýni um, að byggja megi upp ýmsa starfsemi á Suðurnesjum í tengslum við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.
Venjulega eru niðurstöður athugana þannig, að þær leiða til aukinnar bjartsýni. Þær leiða til frekari athugana og meiri tekna skýrsluhöfunda og loks til undirbúnings framkvæmda. Óvenjulegt er að fá allt í einu skýrslu, sem segir, að litlir möguleikar séu á umræddu sviði.
Einar Kristinn Jónsson rekstrarfræðingur vann skýrsluna fyrir Aflvaka Reykjavíkur. Er hún liður í víðtækari úttekt á skilyrðum atvinnurekstrar á Reykjavíkursvæðinu. Samkvæmt henni er betra að bæta skilyrðin almennt, heldur en að ívilna frísvæðisfyrirtækjum.
Frísvæði er vel þekkt fyrirbæri í útlöndum. Svæðið við Shannon-flugvöll á Írlandi hefur oft verið notað til viðmiðunar, þegar talað hefur verið um frísvæði við Keflavíkurflugvöll. En aðstæður eru allt aðrar hér og auk þess er Shannon-frísvæðið of dýrt og misheppnað í raun.
Keflavík getur ekki keppt við Shannon og hin 300 frísvæði heimsins, af því að offramboð er af slíkum svæðum; af því að aðrir voru fyrri til; af því að lega landsins veldur háum flutningskostnaði; af því að laun eru lægri annars staðar; og vegna mikils markaðskostnaðar.
Menn hafa miklað fyrir sér, að tollfrjáls aðgangur að Evrópumarkaði mundi leiða til íslenzks frísvæðis. Í ljós kemur hins vegar, að þessi aðgangur er mjög takmarkaður. Það á til dæmis við um hátækniiðnað. Og samsetningariðnaður forðast hálaunasvæði á borð við Ísland.
Styrkir og ívilnanir í þágu fyrirtækja á frísvæði mismuna innlendri starfsemi, og skekkja rekstrarskilyrði utan og innan svæðisins. Þar á ofan sýnir reynslan frá Shannon, að fyrirtæki á frísvæði eru rótlaus og færanleg Þau hlaupa oft til þeirra, sem bezt bjóða hverju sinni.
Shannon-svæðinu er haldið uppi af gífurlegum styrkjum Evrópusambandsins, af því að Írland er skilgreint sem jaðarsvæði. Styrkirnir námu fjórum milljörðum króna árið 1993 og fara vaxandi. Ekki er til neinn stóri bróðir í útlöndum, sem vill gefa Íslandi slíkar summur.
Shannon-svæðið fékk forskot, af því að það var stofnað 1959, þegar tollar voru mun hærri en nú. Það hefur ekki aukið atvinnu Íra. Atvinnuleysi þar í landi er um 18%. Raunar hefur atvinna á Íslandi aukizt hraðar en þar og flugumferð um Keflavík er hlutfallslega meiri.
Höfundur skýrslunnar segir, að hugmyndin um frísvæði á Suðurnesjum beri keim af tækifæris- og töfralausnum, sem stundum sé gripið til í íslenzkri stjórnmálaumræðu og eigi að bjarga öllu, en skorti jarðsamband. Telur hann, að Suðurnes eigi betri atvinnukosti.
Hann segir, að það mundi skila meiri árangri við eflingu atvinnu og útflutnings að styðja þúsundir fyrirtækja í landinu með almennum, en ekki sértækum aðgerðum, svo og betri starfsskilyrðum, heldur en að styðja örfá fyrirtæki með sértækum og dýrum átaksaðgerðum.
Hann tekur þó fram, að ekkert sé athugavert við að búa til aðstöðu til frírekstrar, svo framarlega sem hann sé byggður upp fyrir áhættufé þeirra, sem að honum standa, og lúti almennum markaðslögmálum. Það eru bara styrkirnir og ívilnanirnar, sem hann varar við.
Þótt fréttir þessar séu naprar, er kuldi jafnan hressandi. Auðveldara er að tala um íslenzk atvinnutækifæri, þegar búið að taka úr umferð óskhyggju um frísvæði.
Jónas Kristjánsson
DV