Mengað og óhreint land

Greinar

Erfitt er að greina milli ímyndunar og veruleika í ráðagerðum um sölu á margvíslegri vöru og þjónustu á þeim forsendum, að Ísland sé hreint og ómengað land. Í sumum tilvikum verða athafnamenn fangar síbyljunnar um frábæra kosti landsins umfram öll önnur lönd.

Á flöskumiða íslenzks vatns til útflutnings er sagt, að það sé úr djúpum lindum á fjögur hundruð metra dýpi undir fjarlægum fjöllum. Í rauninni er þetta vatn úr Heiðmörkinni. Á sama miða segir, að vatnið sé náttúrulegt lindarvatn. Í rauninni er sett í það gos.

Vonandi lenda fjárfestar ekki í vandræðum, þegar upp kemst um strákinn Tuma. Reynslan sýnir í útlöndum, að seljendur vatns og gosvatns geta lent í miklum erfiðleikum, ef varan uppfyllir ekki gefin fyrirheit. Þess vegna er betra að fara með löndum í fullyrðingum vörumiða.

Á þessum flöskumiða eru hugfangnar lýsingar á mengunarleysi Íslands, einföldu lífi þjóðarinnar og mengunarvernd í veðurkerfum landsins. Sérstaklega er tekið fram, að verksmiðjur séu færri en bílar í landinu. Virðist þetta samið í óvenjulega kræfum ýkjustíl auglýsingastofa.

Froða af þessu tagi getur ef til vill gengið í auglýsingum fyrir innlendan markað, þar sem kröfur eru ekki miklar. Hins vegar geta menn lent í vandræðum með hástemmda froðu í útlöndum, ef einhverjum dettur í hug að kanna, hvort nokkur veruleiki sé að baki henni.

Í rauninni er Ísland mengað land mikillar ofbeitar og afleits frágangs úrgangsefna. Þjóðin stundar sama sem enga lífræna ræktun í landbúnaði. Hún lifir engan veginn einföldu lífi, heldur veltir sér í sóunarheimi einnota umbúða. Hún er þjóð hamborgara og gosdrykkja.

Froðan í enska textanum á flöskumiðum útflutningsvatns endurspeglar óskhyggju á öðrum sviðum atvinnulífsins. Verið er að markaðssetja íslenzkan landbúnað í útlöndum sem lífrænan landbúnað, þótt hann sé næstum laus við að geta flaggað slíkum lýsingarorðum.

Markaðssetning af þessu tagi getur hefnt sín, ef hún byggist ekki á traustum grunni staðreynda. Útlendingar koma til landsins. Þeir geta séð, hvernig við förum með sorp. Þeir geta séð, hvernig sumar fjörur eru leiknar. Þeir geta fundið dæmi um mengað og illa farið land.

Mjög gott væri, ef hægt væri að markaðssetja íslenzka vöru og þjónustu sem ómengaða, hreina, lífræna og svo framvegis. Miklu máli skiptir að fá góðan stimpil af slíku tagi á sjávarafurðir okkar, landbúnaðarvörur, iðnaðarvörur á borð við vatn, og ekki sízt ferðaþjónustu.

En fyrst þarf að skapa forsendurnar. Gerbreyta þarf sorphirðu í það form, sem farið er að tíðkast meðal siðaðra þjóða. Stórir geirar landbúnaðarins þurfa að hætta að nota tilbúinn áburð og draga verulega úr notkun fúkkalyfja, svo að nokkur einföld dæmi séu nefnd.

Einkum er mikilvægt, að Íslendingar leggi niður sóðalega umgengni, sem hvarvetna verður vart. Menn verða að hætta að kasta frá sér rusli eins og þeim þóknast. Það er hugarfar þjóðarinnar, sem verður fyrst að breytast, áður en farið er að selja ímynd hreinleika og fegurðar.

Forsendur slíkrar sölumennsku eru því miður ekki til. Íslendingar eru sóðar, sem búa í sóðalegu landi rusls og mengunar. Það er einföld og dapurleg staðreynd, sem kemur í veg fyrir, að hægt sé að láta rætast villta drauma um miklar tekjur af sölu ímyndaðs hreinleika.

Það kostar mikið fé að gera landið hreint. En á því verður að byrja, áður en menn hætta miklum fjármunum til að selja íslenzka vöru og þjónustu sem hreina.

Jónas Kristjánsson

DV