Alger niðurlæging Nató

Greinar

Yfirmönnum Nató kom á óvart, að Serbar skyldu hlekkja hermenn þess við staura til að stöðva loftárásir bandalagsins. Voru Serbar þó margoft búnir að hóta þessu, ef Nató væri með derring. Enda hafði hlekkjunin tilætluð áhrif. Nató lagði niður rófuna að venju.

Þetta er gott dæmi um, að taumlaus greindarskortur ræður ferð Vesturveldanna á Balkanskaga. Dæmin eru raunar endalaus. Hvað eftir annað fara ráðamenn þeirra og samtaka þeirra með marklausar hótanir, sem aldrei er staðið við. En Serbar standa við allar hótanir.

Serbar eru tryllt þjóð, knúð áfram af sagnfræðiþrugli um stöðu sína í samfélagi þjóðanna. Þeim er stjórnað af eftirlýstum stríðsglæpamönnum, sem eru meira eða minna geðveikir. Sönnunargögn um ábyrgð stjórnenda hafa hrannast upp hjá stríðsglæpadómstólnum í Haag.

Pappírstígrisdýr Vesturveldanna eiga ekkert erindi í klær Serba. En ráðamenn fyrrverandi stórvelda og heimsvelda, ráðgjafar þeirra og hershöfðingjar geta alls ekki séð, að tilgangslaust er að vera sí og æ með gersamlega innihaldslausar hótanir við tryllta stríðsmenn.

Lengi hefur verið ljóst, að Nató varð að öryrkjabandalagi, þegar óvinurinn hvarf í austri. Tilgangsleysi og markleysi bandalagsins verður ljósara með hverju málinu, sem það flækist í. Til viðbótar er svo að koma í ljós alvarlegur greindarbrestur í yfirstjórn þess.

Veruleikafirring ráðamanna Nató varð greinileg í nóvember í fyrra, þegar þeir ímynduðu sér og auglýstu um allan heim, að flugvélar bandalagsins hefðu í loftárás eyðilagt flugbækistöð Serba í Udbina. Ekki var fótur fyrir þessu, svo sem Serbar sönnuðu með myndum.

Hernaðarbandalög og fyrrverandi stórveldi og heimsveldi, sem þola ekki að sjá blóð og leggja niður rófuna af minnsta tilefni, eiga ekki að vera að leika hernaðarbandalög, stórveldi og jafnvel heimsveldi. Þau eiga að snúa sér að léttvægari og friðsælli viðfangsefnum.

Efnahagslegt og peningalegt vald ræður ekki stöðu ríkja eða ríkjasamtaka í heiminum, þegar kemur að valdbeitingu. Efnahagslegar refsiaðgerðir eru til dæmis marklitlar. Það, sem ræður, er pólitískur og hernaðarlegur viljastyrkur, sem Serbar hafa í ríkum mæli.

Auðvitað er dapurlegt, þegar geðveikum stríðsglæpamönnum vegnar vel. Enn dapurlegra er þó, þegar þykjustuleikur gagnaðilans magnar slíka menn um allan heim og sannfærir þá um, að þeir geti óhræddir farið sínu fram, af því að Vesturveldin séu búin að vera.

Við þessu er bara ekkert að gera, þegar viljann vantar á Vesturlöndum. Hins vegar væri hægt að lágmarka skaðann með því að hætta að vera með marklausar hótanir, hætta að senda eftirlitsmenn á vettvang og hætta að hafa afskipti af erfiðum utanríkismálum.

Í staðinn gætu hinir pólitísku og hernaðarlegu öryrkjar reynt að hlúa að starfi stríðsglæpadómstólsins í Haag. Þar hafa verið lögð fram skjöl, sem sýna, að ráðamenn Serbíu og Serbahers eru aðilar að stríðsglæpum Bosníu- Serba. Þar á meðal er Milosevic Serbíuforseti.

Raunar hafa brezk og frönsk stjórnvöld reynt að bregða fæti fyrir stríðsglæpadómstólinn og eru að reyna að skrúfa fyrir fjárveitingar til hans. Um leið er verið að bjóða Milosevic stríðsglæpamanni afnám efnahagslegra refsiaðgerða, ef hann viðurkenni Bosníu.

Ef Nató hefði gripið í taumana fyrir þremur árum, þegar Serbar réðust á menningarsögu Vesturlanda í Dubrovnik, hefði verið unnt að hemja skrímslið.

Jónas Kristjánsson

DV