Ágætis tímaskekkja

Greinar

Við lestur stjórnmálabókar Svavars Gestssonar alþingismanns kemur fyrst á óvart, að unnt skuli vera að gefa út slíka bók. Óvenjulegt er og nánast einsdæmi, að íslenzkur stjórnmálamaður hafi hugmyndafræðilegan pakka af skoðunum og geti sett hann fram í rökum.

Íslenzkir stjórnmálamenn hafa fæstir gefið mikið fyrir pakka af hugmyndafræðum. Þeir láta sín stjórnmál að mestu snúast um hversdagslegri hluti á borð við staðbundna hagsmuni atvinnuvega. Og í seinni tíð hefur þeim gengið bezt, sem minnsta hafa hugmyndafræðina.

Til dæmis er erfitt að sjá fyrir sér, að einhver núverandi ráðherra hafi áhuga á hugmyndafræðilegum grundvallaratriðum í stjórnmálum og geti raðað einhverjum slíkum saman í rökfræðilegt samhengi heillar bókar. Þeir hugsa fremur um brauð og smjör en hugmyndir.

Að þessu leyti er bók Svavars eins konar tímaskekkja. Hún fjallar um efni, sem er um þessar mundir meira utangarðs í pólitík en nokkru sinni fyrr. Hún verður til dæmis ekki sameiningartákn í samruna flokka á vinstri væng, því að sá samruni mun snúast um persónur.

Hugmyndafræðilega er bók Svavars fremur mild útgáfa af skoðanapakka, sem ýmist er skilgreindur sem vinstri stefna, jafnaðarstefna eða félagshyggja. Þar er tekið dálítið tillit til markaðshyggjunnar, en þó ekki eins mikið og gert er í jafnaðarmannaflokkum nútímans.

Margir þeir, sem telja sig vera eins konar jafnaðarmenn, hafa meiri trú á getu markaðarins til góðra hluta, svo sem á sviði mengunar og vistfræði. Og ekki verður af bók Svavars séð, að hann hafi fylgzt með nútímalegum rökræðum um slík mál, sem margir þekkja úr Economist.

Sjálfur vill Svavar nánast staðsetja skoðanir sínar sem félagslegan markaðsbúskap, þótt höfundur hugtaksins, Ludwig Erhard, mundi tæpast staðfesta það. Það skilur á milli, að enn þann dag í dag hefur Svavar tröllatrú á græðandi og leiðandi mætti handayfirlagningar ríkisins.

Svavar vísar til nokkurra landa í Suðaustur-Asíu, þar sem velmegun hefur náðst með leiðum, sem ekki falla alveg saman við hinar vestrænu. En hin austræna félagshyggja er fremur rekin af risafyrirtækjum en af ríkinu sjálfu og er því önnur en félagshyggja Svavars.

Raunveruleiki Vesturlanda og Suðaustur-Asíu felur ekki í sér þau dæmi, sem Svavar telur vera til stuðnings við vinstri stefnu eða jafnaðarstefnu eða félagshyggju eða mannúðarstefnu sína, til mótvægis við markaðshyggjuna, sem einkennir stjórnmál í þessum heimshlutum.

Þótt skoðanir og kenningar Svavars séu þannig engin raunvísindi, eru þær fullgildar sem þroskuð rökfræði. Þær gefa heilsteypta mynd af sjónarmiðum, sem eru vinstra megin við Alþýðuflokkinn og geta þess vegna verið vegarnesti Alþýðubandalagsins og skyldra flokka.

Með bók Svavars hefur Alþýðubandalagið fengið skynsamlega og hófsamlega hugmyndafræði, sem flokkurinn getur notað sér í samkeppni stjórnmálaflokka um fylgi fólks, er telur sig geta stutt eins konar vinstri stefnu, jafnaðarstefnu, félagshyggju eða manneskjustefnu.

Til samanburðar hefur Sjálfstæðisflokkurinn enga slíka hugmyndafræði, sem fellur að veraldarsýn flokksins eða flokksmanna, að svo miklu leyti sem sú sýn er til. Til dæmis er sú sýn í reynd langt frá markaðshyggjunni í hugmyndafræði Hannesar H. Gissurarsonar.

Svo er önnur saga, að íslenzkir stjórnmálaflokkar hafa komizt vel af án mikilla hugmyndafræða og hafa í seinni tíð lagt aukna áherzlu á aðra þætti stjórnmála.

Jónas Kristjánsson

DV