Varúð í Víetnam

Greinar

Stundum hættir Íslendingum til að reyna að gleypa sólina, þegar þeir sjá tækifæri opnast. Þannig sjá margir drjúpa smjör af hverju strái á tölvuvöllum Víetnams, af því að íslenzk fyrirtæki hafa verið beðin um að selja þangað reynslu og þekkingu á ýmsum tölvusviðum.

Mikilvægt er, að íslenzkir aðilar, sem sinna kallinu, taki eins litla áhættu og framast er unnt. Meðan verksviðið er reynsla og þekking, er áhættan takmörkuð, en hún eykst hratt, ef fjárfesting og fjármögnun fylgir í kjölfarið. Margir hafa flaskað á slíku í þessum heimshluta.

Reynslan frá Kína er víti til varnaðar. Þar er svipað þjóðskipulag og í Víetnam, alræði eins flokks, sem reynir með handafli að koma á kapítalisma innan ramma kerfisins. Gróðafíknir útlendingar hafa flykkzt að eins og mý á mykjuskán og tapað allri sinni fjárfestingu.

Alræðiskerfi eins og í Kína og Víetnam er afar ólíkt vestrænu valddreifingarkerfi. Allt framtak kemur að ofan og er háð duttlungum valdhafa. Lög og réttur gilda ekki, heldur síbreytilegar reglugerðir að ofan, samfara mikilli spillingu embættismanna, svo sem sjá má í Kína.

Fyrst gengur allt vel, því að kerfið að ofan ryður hindrunum úr vegi. Síðan hefst alvara lífsins, þegar kemur að tekjuskiptingunni. Þá komast útlendu fyrirtækin fljótt að því, að markmið valdhafanna er að mjólka þau og koma í veg fyrir, að þau geti tekið til sín arð.

Að lokum gefast útlendingarnir upp. Þeir afskrifa framlagt hugvit og þekkingu, fasteignir og vélbúnað, og snúa sér að verkefnum í heimshlutum, þar sem hægt er að ganga að ákveðnum leikreglum vísum. Þannig hafa hundruð stórra og smárra fyrirtækja gefist upp í Kína.

Ástæða er til að ætla, að vandamálin í Kína muni endurspeglast í Víetnam, sem er skemmra á veg komið í þróun kapítalisma innan ramma alræðis. Þess vegna er mikilvægt að líta til síðustu ára í Kína, þegar gerðar eru áætlanir um framkvæmdir á næstu árum í Víetnam.

Stórfyrirtækin, sem hafa brennt sig í Kína, fara varlega um þessar mundir í Víetnam. Þess vegna er auðveldara fyrir smákarla eins og Íslendinga að koma sér á flot í efnahagslífinu þar í landi. Sennilega endurspeglast þetta í boði um aðild Íslendinga að víetnamskri tölvuvæðingu.

Allt getur þetta orðið hið bezta mál, ef menn hafa vaðið fyrir meðan sig. Mikilvægt er, að hinir íslenzku aðilar fylgist vel með, hvernig mál hafa þróazt í Kína og gæti þess að lenda ekki í svipuðum vítahring í Víetnam. Einnig er mikilvægt að þekkja sín peningalegu takmörk.

Þeir, sem bara selja reynslu og þekkingu, sleppa oftast með skrekkinn og geta snúið sér að öðrum verkum. Hinir, sem taka þátt í fjármögnun eða taka að einhverju leyti ábyrgð á fjármögnun, tapa oftast öllu. Ef þeir eru smákarlar á borð við okkur, ná þeir sér aldrei aftur.

Annar helzti kosturinn við reynslu og þekkingu á tölvusviðum er, að auðvelt er að færa sig til eftir aðstæðum. Starfsemin er að mestu óháð landamærum og fjarlægðum. Fólk getur jafnvel sumpart unnið heima hjá sér að verkefnum, sem varða fjarlægar heimsálfur.

Hinn helzti kosturinn við reynslu og þekkingu á tölvusviðum er, að unnt er í meira mæli en á öðrum sviðum að komast hjá að festa fjármagn í mannvirkjum og tækjum. Þá festingu er hægt að láta þeim eftir, sem reynslu og þekkingu hafa á sviði áhættufjármögnunar.

Aðalatriðið er að átta sig á, að í alræðisríkjum gilda ekki leikreglur til langs tíma, heldur skipta þarlend stjórnvöld eftir eigin þörfum um reglur í miðjum leik.

Jónas Kristjánsson

DV