Þú kýst ekki eftir á

Greinar

Forsætis- og fjármálaráðherra stóra framsóknarflokksins fóru með rangt mál í umræðum á Alþingi, þegar þeir sögðu fólk ekki hafa verið blekkt til að telja nýju innflutningshaftalögin skárri en þau eru í rauninni. Svonefnd GATT-lög eru neytendum óhagstæðari en fyrri lög.

Lögin brjóta gegn anda svonefnds Uruguay-samkomulags í alþjóðlegu viðskiptastofnuninni GATT, þótt Ísland hafi undirritað samkomulagið. Í stað þess að staðfesta samkomulagið með lögum hefur ríkisstjórnin látið Alþingi samþykkja lög, sem hækka innflutta búvöru í verði.

Niðurstaða Uruguay-samkomulagsins var, að þátttökuríkin skuldbundu sig til að lækka í áföngum innflutningshöft á landbúnaðarafurðum. Markmiðið var að efla heimsviðskiptin, auka fjölbreytni í búvöruframboði og minnka rekstrarkostnað heimilanna í þátttökuríkjunum.

Áhrifin á Íslandi eru öfug. Grænmeti mun hækka í verði, þótt alls ekki hafi verið gert ráð fyrir því í GATT- samkomulaginu. Ofurtollakerfi íslenzku laganna mun því draga úr möguleikum Íslendinga til að fá hollasta fæðuflokkinn á verði, sem hæfir láglaunakerfi landsins.

Samt er grænmeti þegar dýrara á Íslandi en í öðrum löndum. Einföldustu hlutir á borð við papriku kosta um og yfir 400 krónur kílóið og teljast lúxusvara. Ennfremur er framboð grænmetis breytilegt eftir sérhagsmunum. Til dæmis eru kartöflur árlega óætar mánuðum saman.

Á móti hækkun grænmetis vegur lækkun á afar litlu magni búvöru. Svo virðist sem eina leiðin til framkvæmda sé að gefa út skömmtunarseðla, er veiti hverju landsbarni aðgang að einu kílói af ódýru smjöri og hliðstæðu magni af öðrum afurðum frá ódýru útlöndunum.

Þessi lækkun mun ekki nægja til að vega upp á móti hækkun grænmetisverðs. Til viðbótar kemur svo, að landbúnaðarráðherra hefur í nýju lögunum fengið meira vald en nokkru sinni fyrr til að framleiða tolla eftir meintum þörfum innlendra sérhagsmuna hverju sinni.

Að öllu samanlögðu eru íslenzkir neytendur eftir samþykkt laganna í strangari gíslingu grunnmúraðra sérhagsmuna en þeir voru fyrir. Landbúnaðarráðherra sérhagsmunahópanna er orðinn voldugri en áður, enda er hann orðinn hinn eiginlegi tollamálaráðherra ríkisins.

Þótt þingmenn Alþýðuflokks hafi mótmælt lögunum, má ekki gleyma, að Alþýðuflokkurinn er rétt skriðinn út úr ríkisstjórn, sem lagði grundvöll að auknu forræði landbúnaðarráðherra í tolla- og neytendamálum og í sérhagsmunatúlkun á fjölþjóðlegum sáttmálum ríkisins.

Allir þingmenn fyrra kjörtímabils og flestir þingmenn þessa kjörtímabils bera ábyrgð á ástandi, sem bezt verður lýst sem algerri fyrirlitningu íslenzkra stjórnmálamanna á neytendum í landinu. Allir flokkar landsins standa í reynd sem einn gegn hagsmunum neytenda.

Þetta getur yfirstéttin því aðeins leyft sér, að hún veit, að neytendur vilja láta misþyrma sér. Þeir vita, að rúmlega helmingur þjóðarinnar telur eðlilegt, að innlendur landbúnaður sé verndaður gegn samkeppni frá innfluttri búvöru. Þetta sýna margvíslegar skoðanakannanir.

Ekki er von á góðu, þegar rúmlega helmingur þjóðarinnar er beinlínis sáttur við, að verndun sérhagsmuna landbúnaðarins kosti hverja fjögurra manna fjölskyldu 320.000 krónur á hverju ári. Ekki heldur, þegar hinn hluti þjóðarinnar lætur þetta yfir sig ganga mótþróalaust.

Stofna þarf stjórnmálaflokk neytenda og skattgreiðenda til að vega upp á móti þessari kúgun. Eitt af kjörorðum flokksins gæti verið: Þú kýst ekki eftir á.

Jónas Kristjánsson

DV