Þeir undirbúa röng stríð

Greinar

Fyrirhugaðar kjarnorkutilraunir Frakka í Kyrrahafi eru síðbúin tilraun til að gera franska herinn hæfari um að vinna stríð fortíðarinnar, en létta honum ekki að vinna stríð framtíðarinnar. Svipuð tímaskekkja er í vinnubrögðum rússneska hersins í átökunum í Tsjetsjeníu.

Víetnam-stríðið markaði þáttaskil í eðli styrjalda, þegar smáríki rak mesta stórveldi heimsins af höndum sér. Síðan varð Flóabardaginn hinn tæknilega fullkomni svanasöngur hefðbundins stríðsrekstrar, en niðurstaða hans var samt ekki ólík útkomunni í Víetnam.

Framtíðarstríðið verður ekki háð á vígvöllum regnskóga eða eyðimarka. Það verður háð í stórborgum Vesturlanda. Það er bara tímaspursmál, hvenær íslamskir ofsatrúarmenn valda stórfelldu manntjóni í margfalt öflugri sprengingu en varð í World Trade Center.

Tsjetsjenar færðu stríðið við Rússa úr sínu landi og inn í Rússland, þegar þeir réðust á sjúkrahúsið í Búdennovsk. Það er einmitt ein meginreglan í hernaði framtíðarinnar, að hann verður háður á heimaslóðum andstæðingsins, en ekki við landfræðilega víglínu.

Á daginn kom, að rússneski herinn kunni ekkert ráð við þessu. Það eina, sem herforingjarnir kunnu, var að gera gagnárás á sjúkrahúsið. Við það féllu fleiri gíslar en Tsjetsjenar höfðu drepið. Almenningsálitið í Rússlandi tók kollsteypu og snerist gegn rússneska hernum.

Í bili er niðurstaðan sú, að Rússar hafa hætt hernaði sínum í Tsjetsjeníu og leyft skæruliðum Tsjetsjena að fara úr sjúkrahúsinu með fjölda gísla í farteskinu. Þannig reyndist sjúkrahússbardaginn áhrifameiri en allt andóf Tsjetsjena í heimalandinu gegn innrás Rússa.

Gíslataka er mikilvægur þáttur hernaðar í nútímanum. Þetta hafa Serbar leikið af list og fullkomnu samvizkuleysi. Hámarki náði þetta, þegar þeir tóku friðargæzlusveitir Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna í gíslingu og dreifðu myndum af gíslunum.

Atlantshafsbandalagið reyndist ekki vera mikið betur undir þetta búið en rússneski herinn. Silkihúfur hins vestræna hernaðarbandalags höfðu ekkert lært af hrakför friðargæzlusveita í Sómalíu. Gíslarnir reyndust auðtekin bráð Serba og Vesturveldin létu undan síga.

Serbar hafa í fullu tré við Vesturveldin. Árum saman hafa hótanir og úrslitakostir dunið á eyrum Serba, en þeir hafa látið það allt sem vind um eyru þjóta. Margir þjóðarleiðtogar og leiðtogar fjölþjóðastofnana eru með allt á hælunum eftir máttvana afskipti af Serbum.

Einna alvarlegast er ástandið í Bandaríkjunum, þar sem sýndarveruleiki úr bíómyndum leysir veruleikann af hólmi. Þar varð stríðið persónugert í fræknum flugmanni, sem komst undan á flótta. Sigur í bíómyndarefni bætir þjóðinni upp japl og jaml og fuður í Serbíu.

Bandaríkjamenn ímynda sér, að þeir hafi sigrað í Flóabardaga. Verður þó ekki betur séð, en að Saddam Hussein og flokkur hans sé enn við völd í Írak og séu að byggja upp herveldi að nýju, af því að bandaríski herinn glutraði niður sigri með ótímabærum stríðslokum.

Aðvaranirnar eru margar: Víetnam, Flóabardagi, Sómalía, Bosnía, Tsjetsjenía, World Trade Center. Þær sýna, að hefðbundinn stríðsrekstur er að víkja fyrir nýjum leiðum, sem flækja málin. Kjarnorkusprengjur stórvelda eru máttvana gegn ráðagóðum skæruliðum nútímans.

Þrátt fyrir röð aðvarana halda herstjórar stórveldanna og sérstaklega Vesturlanda áfram að eyða milljörðum í að undirbúa allt önnur stríð en þau, sem háð verða.

Jónas Kristjánsson

DV