Fíkniefnafæða

Greinar

Benzínstöðvar í þéttbýli hafa smám saman verið að færa út kvíarnar og eru að verða eins konar krambúðir fyrir skyndivarning, sem kemur bílum ekki sérstaklega við. Þetta eru sumpart áhrif af landsbyggðinni, þar sem benzínstöðvar þjóna víða almennu verzlunarhlutverki.

Á benzínstöðvum hefur fólk oft nokkrar mínútur aflögu til að ganga um og skoða varninginn, sem áreiðanlega er valinn í samræmi við reynslu af viðskiptum fyrri viðskiptavina. Vöruframboðið segir því töluvert um, hvaða nauðsynjar fólk telur sig þurfa í skyndi.

Að ókönnuðu máli mætti ætla, að fólk sæktist eftir viðkvæmum vörum, sem fyrrum voru keyptar á nærri hverjum degi, svo sem fiski og brauði, grænmeti og ávöxtum, mjólk og kjöti. Pakkavörur með löngu geymsluþoli voru hins vegar keyptar í nýlendurvörubúðum.

Núna borðar fólk hins vegar frosið kjöt og fisk og nokkurra daga gamalt brauð, sem það kaupir einu sinni eða tvisvar í viku í stórmörkuðum. Hinar hefðbundnu nauðsynjar eru ekki lengur sóttar í búið á hverjum degi eða annan hvern dag. Nýjar nauðsynjar hafa tekið við.

Sælgæti, gosdrykkir og tóbak voru það fyrsta, sem hélt innreið sína á benzínstöðvarnar. Síðan bættust við súkkulaðikex og sjónvarps-hænsnafóður af ýmsu tagi. Samanlagt eru þetta vörurnar, sem helzt hafa tekið við sem daglegar nauðsynjar Íslendinga í nútímanum.

Uppistaðan í þessum vörum eru þrjú fíkniefni, nikótín, kakó og sykur, sem samanlagt eru stærsti kostnaðarliður heilbrigðisþjónustunnar í landinu. Þau valda alls konar heilsuvandræðum, allt frá óskilgreindri síþreytu upp í banvæna hjartasjúkdóma og krabbamein.

Upp á síðkastið hefur vöruframboð benzínstöðva aukizt um kaffi, verksmiðjuframleiddar kjötvörur á borð við pylsur og verksmiðjuframleitt smurbrauð. Ekkert af því getur talizt kjörfæða að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Allt flokkast það greinilega sem ruslfæði.

Ekki eru hins vegar í boði 100% ávaxtasafar, sem fást af mörgum stærðum og gerðum í landinu. Ekki eru boðnir ferskir ávextir eða grænmeti. Ekki er heldur hægt að fá handhægar mjólkurvörur. Ekki er á boðstólum neitt, sem kemst gegnum nálarauga alþjóðlegs heilsumats.

Þetta lýsir rotnu hugarfari Íslendinga og spilltri umgengni okkar við eigin líkama og sál. Meðan aðrar vestrænar þjóðir borða flestar aðallega á matmálstímum, stöndum við í sjoppum og benzínstöðvum og troðum í okkur skyndibita- og millimálafæði af aumasta tagi.

Áhugafélög um varnir og forvarnir gegn sjúkdómum reyna af veikum mætti að hafa vit fyrir þjóðinni, en tala fyrir daufum eyrum. Stjórnvöld heilbrigðismála eru nokkurn veginn alveg afskiptalaus, enda eru uppskurðir og lyfjagjafir það eina, sem menn skilja þar á bæ.

Vandinn, sem blasir við á benzínstöðvunum, er miklu stórfelldari en margumræddur vandi þjóðarinnar í efnahags- og fjármálum, því að lélegt og versnandi heilbrigðisástand þjóðarinnar er stórfellt efnhags- og fjárhagsvandamál, bæði fyrir opinbera aðila og borgara landsins.

Það ætti raunar að vera ljóst, að mannslíkaminn er ekki fær um að vaxa og endurnýjast af verksmiðjuframleiddu og fíkniefnablönduðu rusli, að minnsta kosti ekki þegar það er orðið að eins umfangsmiklum þætti í fæðu landsmanna og sézt í sjoppum og benzínstöðvunum.

Kóróna mætti vitleysuna með því að leyfa benzínstöðvum að bjóða bjór og brennivín, rétt svona til að fullkomna framboðið af því, sem Íslendinga þyrstir mest í.

Jónas Kristjánsson

DV