Afturhalds-aðallinn

Greinar

Framfarir og réttlæti á Íslandi hafa oft komið að utan, gegn vilja innlendrar valdastéttar. Þannig var það fyrr á öldum og þannig er það nú á tímum. Erlendir dómstólar hnekktu til dæmis þá og hnekkja enn innlendum dómum, svo að réttlæti nái fram að ganga á Íslandi.

Framfarir voru ekki vel séðar af hálfu innlendrar yfirstéttar fyrr á öldum. Íslenzka landeigendavaldið að baki embættismanna ríkisins reyndi að koma í veg fyrir, að duglegir vinnumenn færu á mölina og hefðu góðar tekjur af sjávarútvegi í samkeppni við landbúnaðinn.

Snemma á öldum fann innlenda valdastéttin upp á því að niðurgreiða búvöru með sjávarvöru. Verði á útfluttum sjávarafurðum var haldið niðri til að koma á móti háu skilaverði á útfluttum landbúnaðarafurðum. Þetta hefur verið upplýst í sagnfræðirannsóknum síðustu ára.

Innlenda yfirstéttin framleiddi hörmungar í landinu fyrr á öldum, gegn vilja erlendra kaupmanna og dansks konungsvalds. Nú á tímum framleiðir innlenda yfirstéttin á sama hátt láglaunaþjóðfélag í landinu, einkum með millifærslum frá sjávarútvegi til landbúnaðar.

Millifærslukerfi nútímans er skilgetið afkvæmi millifærslukerfa fyrri tíma. Sem fyrr hefur innlendum ráðamönnum þjóðfélagsins tekizt að halda saman þjóðarsátt um sérstaka verndun úreltra atvinnugreina á kostnað lífskjara. Þannig er árlega brennt tugmilljörðum króna.

Afturhalds-aðallinn á Íslandi komst snemma upp á lag með að vitna í Jónas Hallgrímsson og aðra slíka um, að allt væri bezt á Íslandi, hefði alltaf verið og mundi alltaf verða. Þessi þjóðlegi áróður var áhrifamikill fyrr á öldum og ræður oftast útslitum enn þann dag í dag.

Fyrr á öldum voru það landeigendur í landbúnaði, sem mynduðu íslenzkan aðal og reyndu að hindra atvinnuþróunina, svo að hún truflaði ekki þáverandi landbúnað. Nú á tímum rekur aðallinn stórbrotna hringa fáokunarfyrirtækja, sem standa í vegi innfluttrar samkeppni.

Undanfarna áratugi hefur ríkisvaldið verið rekið í þágu tveggja aðila, hins hefðbundna landbúnaðar annars vegar og fáokunarfyrirtækjanna hins vegar. Fáokunarfyrirtækin eru tvö eða þrjú í hverri grein og hafa á hverju sviði með sér samráð um verð og þjónustu.

Samkeppni að utan er skelfileg í augum yfirstéttarinnar, sem á og rekur fáokunarfyrirtækin. Þess vegna reynir hún að draga úr sókn þjóðarinnar í fjölþjóðlega viðskiptasamninga og fjölþjóðleg verzlunar- og efnahagssamtök af ýmsu tagi, nú síðast Evrópusambandið.

Oft tekst aðlinum að koma í veg fyrir hagnað almennings af fjölþjóðlegri opnun viðskipta. Síðasta dæmið um það er í nýjum lögum, þar sem svonefndu GATT-samkomulagi er með hugvitsamlegum ofurtollum snúið upp í þverstæðu sína og þjóðinni samt haldið ánægðri.

Íslenzkur aðall heyr varnarstríð gagnvart viðskiptum við útlönd. Öðrum þræði er hér á landi öflug hreyfing í átt til viðskiptafrelsis. Sú hreyfing réð miklu í viðreisnarstjórninni sællar minningar og hún réð til dæmis nokkru í síðasta ríkisstjórnarsamstarfi, sem lauk í vor.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ná að mynda stjórn saman, magnast samtryggingarkerfi hins hefðbundna landbúnaðar og hringa fáokunarfyrirtækjanna. Þá er stungið við fótum, farið að vitna í Jónas Hallgrímsson og ræktuð einangrunarstefna.

Þá notar forsætisráðherra 17. júní til að vara þjóðina við Evrópusambandinu og vitnar í Jónas Hallgrímsson til staðfestingar á, að allt sé bezt á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV