800 dilka heimsókn

Greinar

Senn kemur að ferðaveizlu, sem stofnanir landbúnaðarins halda forustumönnum tveggja verzlana í Bandaríkjunum, sem hafa tekið að sér að selja vistvænt dilkakjöt af íslenzku bergi. Heimsóknin kostar okkur 800 slíka dilka, því að bændur fá 100 krónur fyrir kílóið.

Stofnanir landbúnaðarins hafa fengið aukalega kvartmilljarð af almannafé til að selja íslenzkar landbúnaðarvörur sem vistvænar. Þingmenn ákváðu þetta í þinglok í vetur, þótt þá þegar væri upplýst, að peningarnir ættu að fara í sjónhverfingar, en ekki endurbætur á vöru.

Árangurinn er auðvitað enginn. Verðið, sem landbúnaðurinn fær fyrir vöruna, sem kölluð er vistvæn, er sama lága verðið og hingað til hefur fengizt í útflutningi fyrir sömu vöruna, áður en farið var að kalla hana vistvæna. Enda hefur orðið vistvænt enga skilgreinda merkingu.

Erlendis er orðið lífrænt hins vegar skilgreint. Að baki þess liggja skilgreindar kröfur um lífrænan áburð og skiptiræktun. Ennfremur eru á bak við það óháðar vottunarstofur, sem votta, að farið sé eftir settum reglum. Á þessum forsendum fæst hærra verð fyrir afurðirnar.

Engar slíkar skilgreindar reglur eru til um neitt, sem heitir vistvænt á þessu sviði. Engar óháðar vottunarstofur starfa á því sviði. Enda fæst ekki króna í viðbót fyrir búvöru, þótt stofnanir landbúnaðarins á Íslandi ráði ímyndunarfræðing til að selja hana sem vistvæna.

Munurinn á lífrænu og vistvænu felst í rauninni í, að hafa þarf sérstaklega fyrir lífrænni framleiðslu. Stofnanir landbúnaðarins eru að reyna að komast hjá þeirri fyrirhöfn með því að setja marklausan vistvænustimpil á framleiðslu íslenzkrar búvöru eins og hún er nú.

Raunar er til lífræn framleiðsla í landinu. Hún er stunduð á nokkrum stöðum, einkum í nágrenni Víkur í Mýrdal. Fimm sveitarfélög hafa komið á fót vottunarstofu, sem fer eftir alþjóðlegum reglum um það efni. Fulltrúar verzlunar og neytenda eru í stjórn hennar.

Embættismenn stofnana landbúnaðarins hafa oft reynt að bregða fæti fyrir þessa lífrænu ræktun. Þeir hafa lagt lykkju á leið sína til að hefta framgang framleiðslu, sem er í samræmi við alþjóðlega staðla um lífræna ræktun. Þeim finnst hún trufla sjónhverfingarnar.

Í stað þess að leggja kvartmilljarðinn í að bæta framleiðslu landbúnaðarins, svo að stærri hluti hennar geti fengið hinn óháða stimpil lífrænnar vöru, er hann allur lagður í sjónhverfingar, sem eiga að selja núverandi framleiðslu eins og hún er og án nokkurra endurbóta.

Þetta var þingmönnum sagt, áður en þeir samþykktu ruglið, en þeir létu sér ekki segjast, enda flestir fremur skillitlir og þröngsýnir í senn. Afleiðingarnar eru þegar farnar að koma í ljós. Peningar skattgreiðenda brenna fljótt og verðið á dilkakjötinu er bara óbreytt.

Það er dæmigert fyrir þessar ímyndanir og sjónhverfingar, að tveimur kaupmönnum í Bandaríkjunum er boðið í Íslandsheimsókn, sem kostar 800 dilka á því verði, sem fæst út úr þeim fyrir vistvæna kjötið. Það sýnir, að málið í heild er kostnaður, en ekki tekjur.

Einnig er dæmigert, að farið er með gestina vítt og breitt um landið, farið í Bláa lónið, farið í siglingu um Breiðafjörð og farið í reiðtúr á hrossabúi, en alls ekki sýndur sauðfjárbúskapurinn að baki afurðanna og allra sízt nokkur búskapur, sem getur talizt lífrænn.

Ímyndunarfræðin og sjónhverfingarnar, sem hafa heltekið stofnanir landbúnaðarins, draga úr möguleikum þess, að hér verði stunduð lífræn ræktun með hagnaði.

Jónas Kristjánsson

DV