Leikvöllur stórhvela

Greinar

Fátt er um fína drætti í varnarræðum Hæstaréttar og skjólstæðinga hans í fjölmiðlum að undanförnu. Seinagangurinn í meðferð mála hjá Hæstarétti er svo augljós, að hann er helzt varinn með því að segja hann ekki vera eins slæman núna og hann var fyrir nokkrum árum.

Þótt eitthvað sé nú illskárra en það var fyrir nokkrum árum, þýðir það ekki, að það sé viðunandi. Formúlan um, að batnandi manni sé bezt að lifa, gildir ekki, meðan hann er enn vondur. Batinn verður að fullnægja lágmarkskröfum til að hægt sé að byrja að lofa hann.

Enginn málsvara Hæstaréttar og skjólstæðinga hans treystir sér til að verja siðferðið í framgöngu Hæstaréttar, enda er það með endemum. Siðleysið felst einkum í seinagangi, sem veldur því, að þeir, sem minna mega sín í lífinu, treysta sér ekki til að gæta réttar síns.

Hæstiréttur er hins vegar kjörinn leikvöllur fyrir stórhveli þjóðfélagsins, ríkisvaldið og stofnanir þess, ýmis stórfyrirtæki og fáokunarsamtök þeirra, sem hafa endalaust fjármagn til að reka mál og draga þau á langinn með eindregnum stuðningi og velvilja Hæstaréttar.

Lögmaður tryggingafélags fékk tíu mánaða frest hjá Hæstarétti til að afla gagna í máli, sem búið var að rannsaka í héraði og eftir að tryggingafélagið hafði fullnýtt áfrýjunarfrest. Þessi langi frestur Hæstaréttar er óviðunandi. Frestun réttlætis er skortur réttlætis.

Talsmenn Hæstaréttar og skjólstæðinga hans segja, að mikinn tíma taki að afla gagna úr héraðsdómi. Með því eru þeir að segja, að í dómskerfinu séu stunduð vinnubrögð úr forneskju, sem engan veginn hæfa tölvuöld. Þessi skýring er áfellisdómur yfir dómstólum landsins.

Auðvitað er ekki viðunandi, að það taki meira en nokkrar klukkustundir að fá gögn frá héraðsdómi. Alveg eins og það er ekki viðunandi, að skjólstæðingarnir fái meira en mánuð til að undirbúa sig fyrir viðbótarmálflutning fyrir Hæstarétti ofan á fyrri undirbúning.

Áður hafa verið færð til bókar eindregin dæmi þess, að Hæstiréttur sé hallur undir valdið í öllum myndum þess, en fyrst og fremst ríkisvaldið. Þetta hefur leitt til þess, að Hæstiréttur hefur hvað eftir annað verið rassskelltur í úrskurðum hjá fjölþjóðadómstólum.

Auðvitað getur ekki allur almenningur fetað í fótspor þeirra, sem hafa með seiglu og fórnum sótt mál sín gegnum allt dómskerfi landsins og að lokum endurheimt réttlætið úti í Strasbourg eða Haag. Á þessari leið bugast þeir, sem minna mega sín, og ganga til nauðasamninga.

Tryggingafélögin mynda fáokunarhring, sem leikur á þetta kerfi. Þau stífla dómskerfið með endalausum málaferlum, þar sem allt er dregið sem mest á langinn með stuðningi dómstóla. Markmiðið er að fá fólk til að semja um smánarbætur, af því að það hefur ekki úthald.Afkastalítill Hæstaréttur situr í fílabeinsturni sínum og horfir ekki á skrumskælingu réttlætisins í þessari aðferðafræði. Í þess stað gefur rétturinn skjólstæðingum sínum hjá valdastofnunum hins opinbera og efnahagslífsins nokkurn veginn eins mikið svigrúm og þeir vilja.

Gott dæmi um hroka og siðblindu Hæstaréttar er, að forseti réttarins hefur notað umræðuna til að vekja athygli á, að ekki fáist dómur fyrr en eftir næstu áramót í máli, sem þegar hefur verið að velkjast um í átta ár. Hvergi örlar á skilningi á aðstöðuleysi lítilmagnans.

Viðbrögð Hæstaréttar og skjólstæðinga hans draga úr líkum á, að þeir, sem minna mega sín í þjóðfélaginu, þori að gæta réttar síns í seinagangi dómskerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV