Hann er samt velkominn

Greinar

Heimsókn forseta Taívans til Íslands væri hið bezta mál. Við þurfum að taka upp betri samskipti við það merka ríki, sem er í örum uppgangi sem lýðræðisríki og efnahagsveldi. Miklu nær væri raunar að hafa sendiherra þar en í hryllingsríkinu Kína á meginlandinu.

Taívan hefur undanfarin ár siglt í kjölfar Japans með efldu lýðræði og bættum efnahag. Þessi tvö ríki og Suður- Kórea að auki eru kraftaverkin í Austur-Asíu, útverðir lýðræðislegra og efnahagslegra framfara. Við eigum að vera í sem beztu sambandi við þessi þrjú undraríki.

Frá sjónarmiði viðskipta ættum við að hafa sameiginlegan sendiherra í þessum þremur löndum, en alls engan í Kína. Við höfum mikil og góð viðskipti við Japani. Þau hafa dafnað af sjálfu sér, alveg án fjölmennra heimsókna opinberra sendinefnda og hástemmdra yfirlýsinga.

Við þurfum að víkka japönsku viðskiptasamböndin til Taívans og Suður-Kóreu um leið og þjóðum þeirra ríkja vex fiskur um hrygg í efnahagsmálum. Þar verður senn mikil kaupgeta eins og er nú í Japan, sem um þessar mundir er okkar mesti hátekjumarkaður í heimi.

Samskipti okkar við Kína eru hins vegar einskis virði frá sjónarmiði viðskipta. Og raunar er út í hött að hafa þar sendiherra. Það getur aldrei orðið okkur annað en til vandræða, því að kínversk yfirvöld eru sí og æ að heimta, að önnur yfirvöld beygi sig fyrir þeim.

Svo undirgefnir eru menn kínverskum ráðamönnum, að þeir hlaupa upp út af því, hversu vingjarnlega forseti Íslands hafi talað til forseta Taívans við blaðakonu frá því landi. Hafi forseti Íslands látið góð orð falla í viðtalinu, er það ekki hneyksli, heldur hið bezta mál.

Undirlægjuhátturinn gagvart kínverskum ráðamönnum er hins vegar orðinn að hneyskli. Hinar tíðu ferðir íslenzkra ráðherra til Kína eru hneyksli og sömuleiðis opinberar heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands. Þetta eru gagnslaus samskipti við pólitísk úrhrök.

Kína verður seint annar eins kostamarkaður fyrir íslenzkar afurðir og markaðurinn er í Japan, Taívan og Suður-Kóreu. Kínverjar munu um langan aldur greiða sultarverð fyrir íslenzkar afurðir. Enda hafa ekki dafnað nein viðskipti, þrátt fyrir opinberar heimsóknir.

Enn síður eru nokkrar líkur á, að íslenzk fjárfesting í Kína muni skila sér. Þvert á móti mun fara fyrir allri íslenzkri fjárfestingu þar í landi nákvæmlega eins og lakkrísverksmiðjunni frægu, sem Halldór Blöndal samgönguráðherra var svo ánægður með á sínum tíma.

Öflugri fjárfestar en Íslendingar eru nú sem óðast að komast að raun um, að kínversk stjórnvöld nota ekki lög og rétt, heldur geðþótta og tilskipanir í samskiptum við erlenda fjárfesta. Þau vilja ekki samstarf við erlenda aðila, heldur reyna þau að kúga þá og hafa af þeim fé.

Þolanlegt er að tapa á viðskiptum við gott fólk, en því er alls ekki til að dreifa með kínverska viðsemjendur okkar. Ráðamenn Kína eru blóði drifnir glæpamenn, sem halda hundruðum milljóna manna í stærsta fangelsi heimsins. Kína er heimsins mesta kúgunarmiðstöð.

Ráðamönnum okkar ber að hætta þeirri ógeðfelldu iðju að sleikja ráðamenn Kína til að gefa okkur færi á að tapa peningum á viðskiptum og fjárfestingu í Kína. Miklu nær er að beina sjónum okkar að Taívan, þar sem pólitíska loftið er hreinna og hagnaðarlíkur meiri.

Þess vegna skal forseti lýðræðisríkisins Taívans ævinlega vera velkominn hingað til lands, en blóði drifnir ráðamenn alræðisríkisins Kína hins vegar alls ekki.

Jónas Kristjánsson

DV