Séra Jón er bara Jón

Greinar

Danskt máltæki segir, að þeim, sem guð gefi embætti, gefi hann líka skilning. Það felur í sér, að persónur vaxi upp í þau embætti, sem eru of stór fyrir þær, þegar þær byrja. Máltækið á rætur sínar í fyrri öldum, þegar minni kröfur voru gerðar til valdsmanna en núna eru gerðar.

Annað máltæki nútímalegra hefur leyst þetta af hólmi. Það segir, að menn hætti að hækka í tign, þegar þeir nái getuleysisstigi sínu. Þess vegna séu flest embætti skipuð mönnum, sem ekki ráði við þau. Ef þeir réðu við embættin, hefðu þeir hækkað upp í enn hærri embætti.

Máltækin lýsa raunar tveimur hliðum á sama hlutnum. Munurinn er sá, að fyrra máltækið gerir litlar kröfur til valdsmanna, en hið síðara miklar. Í rauninni skiptir litlu, hvort Jón eða séra Jón gegnir valdsmannsstöðu. Jón á eyrinni gæti gegnt henni eins og séra Jón gerir.

Valdsmannsstöðu fylgir virðing, sem persóna nýtur, þótt hún hafi litla embættisgetu. Virðingin leiðir af embættinu sem slíku og því valdi, sem það veitir, en ekki af embættisfærslu valdsmannsins, sem yfirleitt er upp og ofan. Fólk ber virðingu fyrir valdinu sem slíku.

Þegar hér er talað um embætti, er ekki aðeins átt við stöður í opinbera geiranum, heldur einnig í einkageiranum, þar sem afleiðingarnar eru raunar mælanlegri. Stórforstjórar hafa leitt margt fyrirtækið út á kaldan klaka, af því að þeir réðu engan veginn við embætti sín.

Fyrir allmörgum árum leiddu ævintýralega launaðir stórforstjórar heimsfyrirtækið IBM út á jaðar gjaldþrots vegna vanmats á einmenningstölvum. Með snarræði tókst helztu hluthöfum á síðustu stundu að skipta út forstjórum og kippa fyrirtækinu af bjargbrúninni.

Hér á landi eru tugir dæma um, að fyrirtæki lifa hreinlega ekki af aðra eða þriðju kynslóð forstjóra. Viðskiptasaga Reykjavíkur einkennist af þeirri staðreynd, að sjaldgæft er, að fyrirtæki lifi af þrjár kynslóðir forstjóra. Austurstræti og Laugavegur eru minnisvarði um þetta.

Helztu valdamenn Bandaríkjanna og Bretlands, Clinton og Major, eru dæmi um stjórnmálamenn, sem valda ekki hlutverki sínu. Þeir gætu ráðið við að vera ráðherrar í friðsælu umhverfisráðuneyti á Íslandi, en þeir hafa jafnan verið úti að aka í aðkallandi heimsmálum.

Bosnía er dæmi um ráðleysi þeirra og nokkurra annarra valdhafa í stórveldum heimsins og í helztu fjölþjóðasamtökum, sem sinnt hafa Bosníudeilunni. Annað hvort áttu þeir að láta málið afskiptalaust eða taka það föstum tökum. Í staðinn hafa þeir farið undan í flæmingi.

Stöðug útgáfa algerlega marklausra hótanabréfa hefur grafið svo undan áliti helztu stórvelda og fjölþjóðasamtaka hins vestræna heims, að þriðja heims tindátar taka ekki lengur nokkurt mark á vestrænum valdhöfum. Þetta hefur valdið Vesturlöndum miklu og vaxandi tjóni.

Íslenzkir valdamenn þurfa blessunarlega ekki að taka afdrifaríkar ákvarðanir um Bosníu. Ef utanríkisráðherra okkar væri í stöðu Clintons eða Majors, mundi hann hafa flaskað á sömu atriðum og þeir. Ummæli hans um alþjóðamál benda ekki til, að hann hafi næga yfirsýn.

Utanríkisráðherra okkar er gott dæmi, af því að hann er talinn hæfari valdsmaður en gengur og gerist hér. Sem sjávarútvegsráðherra stóðst hann þrýsting hagsmunaaðila og gat haldið sjó í kvótakerfinu. En getur hann skipt um skoðun núna, þegar kvótakerfið er orðið úrelt?

Raunsæið eykst, ef Jónar þjóðfélagsins átta sig á, að séra Jónar þess eru ekki miklu hæfari en venjulegir Jónar til að sinna valdastöðum stofnana og fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV