Ánægð með ekkert

Greinar

Ekkert lát er á vinsældum ríkisstjórnarinnar, enda er ekkert lát á aðgerðaleysi hennar. Hún lofaði fáu, þegar markmið hennar voru sett á blað, og ekkert af því hefur komizt á rekspöl. Þetta er í samræmi við vilja þjóðar, sem er orðin þreytt á tíðum stjórnvaldsaðgerðum.

Ríkisstjórnin, sem var næst á undan þessari, var mjög virk. Einkennisráðherrar hennar voru Sighvatur Björgvinsson, sem stóð í sífelldum átökum við niðurskurðartilraunir, og Jón Baldvin Hannibalsson, sem beitti liðugum talanda til að hrella mann og annan í tíma og ótíma.

Ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar voru daglegir gestir í sjónvarpsfréttum. Suma daga snerust hálfir fréttatímar sjónvarpsstöðva um viðtöl við ráðherra. Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar sjást mun sjaldnar á skjánum, enda munu menn ekki verða eins fljótt langþreyttir á þeim.

Ríkisstjórnin hefur takmarkaðan hugmyndafræðigrunn. Hún er fyrst og fremst ríkisstjórn hinna vel settu fyrir hina vel settu. Hún reynir að varðveita ríkjandi hagsmuni í þjóðfélaginu, einkum og sér í lagi landbúnaðarins og stórfyrirtækja kolkrabbans og smokkfisksins.

Þetta er þannig hin hefðbundna helmingaskiptastjórn Íhalds og Framsóknar. Hún er fremur andsnúin smælingjum, hvort sem þeir eru neytendur, láglaunafólk, styrkþegar af ýmsu tagi, börn eða konur, og reynir að hafa hemil á margs konar velferð í þágu smælingjanna.

Mikill meirihluti kjósenda er ánægður með þetta. Menn eru til dæmis mjög ánægðir með, að ríkisstjórninni skuli hafa tekizt að hindra, að innihald fjölþjóðlegra viðskiptayfirlýsinga nái fram að ganga hér á landi. Meirihluti kjósenda vill alls ekki efla hag neytenda.

Hvenær sem rekast á hagsmunir innlendra matvælaframleiðenda og innlendra neytenda, sem gerist anzi oft, tekur ríkisstjórnin skýra afstöðu með hinum fyrrnefndu. Hún lítur á sig sem verndara landbúnaðarins gegn vaxandi heimtufrekju neytenda og kemst upp með það.

Hin hefðbundna stjórnarandstaða er meira eða minna máttvana gegn þessum merkilegu staðreyndum. Raunveruleg stjórnarandstaða hefur færzt í hendur kaupmanna Bónusar og Hagkaups og á fréttastofur ýmissa fjölmiðla, sem kann ekki góðri lukku að stýra.

Erlendir sendiherrar bjuggust ranglega við, að ríkisstjórnin mundi hugsa sér til hreyfings í átt til Evrópu á kjörtímabilinu. Það sýnir gagnsleysi slíkra embætta, að sendiherrarnir vissu ekki það, sem augljóst var, að forsætisráðherrann var og er andvígur slíkri þróun.

Þegar kjörtímabilinu lýkur á síðasta ári aldarinnar verður ekki búið að leggja neinn marktækan grunn að þátttöku Íslands í Evrópu 21. aldar. Þá verður þjóðin enn í fangelsi þeirra hagsmuna, sem ráða ríkinu, landbúnaðar og stórfyrirtækja kolkrabbans og smokkfisksins.

Svo íhaldssöm er ríkisstjórnin, að hún getur ekki hugsað sér að leggja í ódýrar aðgerðir til að gera Íslendinga gjaldgenga á upplýsingahraðbraut nútímans. Hún hyggst afhenda íhaldssamri einokunarstofnun aðstöðu til að selja dýran aðgang að níðþröngum upplýsingastígum.

Ríkisstjórnin hæfir íhaldssamri eyþjóð, sem alltaf hefur vitað, að allt er bezt á Íslandi. Hún hæfir þjóð, sem telur, að sjávarútvegur sé hina eina og sanna uppspretta verðmæta, sem síðan eigi að brenna í landbúnaði. Hún hæfir þjóð, sem telur, að hver sé sjálfum sér næstur.

Af þessum ástæðum er þjóðin ánægð með, að ríkisstjórnin skuli litlu lofa og gera enn minna, en standa dyggan vörð um afmarkaða hagsmuni aftan úr fortíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV