Mörgum sárnaði eðlilega, þegar Björt framtíð fór strax á bólakaf í viðræður við aflandseyjakónginn um myndun ríkisstjórnar. Enda kom ekkert út úr þeim viðræðum annað en tveggja vikna seinkun. Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki í mál að efna til markaðsbúskapar í sjávarútvegi og þar við situr. Ef allt er með felldu á Bessastöðum, verður Katrínu Jakobsdóttur núna falin tilraun til stjórnarmyndunar. Píratar hallast að stjórn undir forsæti hennar. Samtals hafa þeir tveir flokkar tuttugu þingmenn og þurfa því að leita liðsinnis Viðreisnar með sjö þingmenn og miðflokkanna með aðra sjö. Slík stjórn ætti að geta komið á markaðslögmálum í sjávarútvegi.