Loksins

Greinar

Árásir herliðs vesturveldanna á víghreiður Serba í Bosníu eru betri en engar, þótt þær séu síðbúnar. Yfirmenn Atlantshafsbandalagsins hafa enn tækifæri til að klúðra þeim með of vægu framhaldi þeirra, þegar Serbar hafa gefið marklausar yfirlýsingar um stöðvun ofbeldis.

Serbar hafa eins og aðrir, sem vilja fara sínu fram án tillits til vesturveldanna, afar litla trú á getu þeirra til að standa í mannfórnum af völdum hernaðar. Þeir hafa séð ráðamenn vesturveldanna endurtaka marklausar hótanir í síbylju, án þess að láta verða af verkum.

Markleysið einkennir viðskipti vesturveldanna og Serba í Bosníudeilunni. Vesturveldin senda marklausar hótanir og Serbar gefa marklausar yfirlýsingar um vopnahlé. Þetta hefur gengið árum saman og grafið undan virðingu fyrir vesturveldunum og ótta við þau.

Bandaríkjamenn lögðu niður rófuna í Sómalíu, þegar átján hermenn þeirra féllu. Þeir höfðu áður flúið af hólmi í Líbanon, þegar nokkrir hermenn féllu þar. Þjóð, sem þolir ekki að sjá blóð, getur ekki haldið uppi heimsveldi. Hún gat ekki heldur lokið stríðinu við Írak.

Getuleysi Bandaríkjanna í hernaði sést vel af Víetnamstríðinu. Þar féllu 58.000 Bandaríkjamenn, sem samsvara 58 Íslendingum, miðað við fólksfjölda. Það samsvarar nokkurra ára fórnum Íslendinga til lífsbaráttunnar á hafinu. Samt höfum við ekki gefizt upp á sjómennsku.

Á Vesturlöndum er stórveldahnignunin átakanlegust í Bandaríkjunum. Hún er einnig mikil í Bretlandi, þar sem stjórnvöld hafa sífellt reynt að hella vatni á tillögur annarra um að fara loksins að gera eitthvað í Bosníu. Helzt eru það Frakkar, sem hafa stórveldisvilja.

Það kostar vilja að vera stórveldi og meiri vilja að vera heimsveldi. Þegar menn vilja ekki lengur borga kostnaðinn, leiðir það til álitshnekkis og minni áhrifa í umheiminum. Vesturveldin eru svo langt leidd á þessu sviði, að Atlantshafsbandalagið er orðið grínfígúra.

Þetta er baksvið Bosníustríðsins. Serbar hafa aldrei tekið mark á hótunum vesturveldanna, Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna. Til að vinna tíma hafa þeir oft skrifað undir samninga um vopnahlé, en hafa síðan aldrei beðið eftir, að blekið þornaði.

Reynslan segir Serbum, að nú eigi þeir að hafa hægt um sig að sinni til að draga úr áhuga vesturveldanna á frekari árásum. En síðan geti þeir fært sig upp á skaftið á nýjan leik, því að það þurfi mikið að ganga á til að vesturveldin taki við sér með nýjum árásum á Serba.

Brezk stjórnvöld eru þegar komin með bakþanka. Það vita Serbar og þeir munu því ekki láta sér segjast við lofthernað síðustu daga. Þeir telja sig hafa meira úthald en þeir hafa séð í garði vesturveldanna. Þeir munu halda áfram að þvælast fyrir friði og bíða nýrra færa.

Árásir vesturveldanna á víghreiður Serba eru síðbúnar og hafa lítil áhrif. Þær þurfa að vera víðtækari en þær hafa verið að undanförnu. Og vesturveldin þurfa að hafa úthald til að halda þeim áfram, unz knúin hafa verið fram endalok á útþenslustríði Serba í Bosníu.

Allt verður dýrara við að vera dregið á langinn. Af því að árásir vesturveldanna eru síðbúnar, þurfa þær að standa miklu lengur en ella til að sannfæra Serba um, að alvara sé á ferðinni. Enn eru árásirnar ekki komnar á það stig, að Serbar taki mikið mark á þeim.

En síðbúnar árásir eru betri en engar. Þær vekja vonir um, að vesturveldin hafi séð að sér og ætli ekki að sökkva dýpra í eymd og volæði fyrrverandi stórvelda.

Jónas Kristjánsson

DV