Kemur ykkur ekki við

Greinar

Þingmaður nokkur lýsti því yfir í viðtali við DV, að kjör þingmanna ættu ekki að vera til umræðu meðal almennings. Þessi ruglaði þingmaður, sem aldrei hefur sýnt, að hann hafi neitt til síns ágætis umfram venjulegt fólk, virðist telja sig yfir þjóðina hafinn.

Þetta er svipuð hugsun og ríkti hjá evrópskum aðli fyrir frönsku byltinguna. Þá taldi yfirstéttin, að ekki ættu sömu reglur að gilda um sig og þegnana í þjóðfélaginu. Þar á meðal lét fína fólkið gilda allt aðrar og mildari skattareglur um sig en aðra landsmenn.

Með stjórnarbyltingunni fyrir rúmlega tveimur öldum og hliðstæðu uppgjöri í öðrum löndum var þessari skoðun hafnað á Vesturlöndum. Komið var á lýðræði, sem fól meðal annars í sér, að allir skyldu vera jafnir fyrir lögunum. Það hefur síðan verið hornsteinn lýðræðisins.

Í tvær aldir hafa Vesturlandabúar ekki verið þegnar í ríki aðalsmanna, heldur frjálsir borgarar. Þetta kerfi er búið að vera lengi í gildi hér á landi. Því er athyglisvert, að margir íslenzkir þingmenn líta á sig sem eins konar aðalsmenn, sem lúti öðrum reglum en annað fólk.

Deilan um kjör þingmanna snýst ekki um, hvaða laun þeir eigi skilið. Fæstir landsmenn telja sig hafa þau laun, sem þeir eigi skilið. Þeir, sem gagnrýna þingmenn núna, eru ekki að segja, að þeir hafi hæfileg laun, heldur, að sömu reglur eigi að gilda um þá og aðra landsmenn.

Margir þingmenn verja skattsvikin með því að segja sig illa launaða, til dæmis í samanburði við aðra tilgreinda hópa í þjóðfélaginu. Það kann vel að vera rétt, en kemur ekki beinlínis því máli við, sem olli sprengingu í þjóðfélaginu í þessari viku. Málið er skattfrelsið.

Það er því miður eitt helzta einkenni siðspilltrar yfirstéttar stjórnmálanna á Íslandi, að hún fer að tala um annað, þegar þrengt er að henni á einu sviði. Þegar hún er ákærð fyrir að vernda skattsvik sín með lögum, talar hún um, hvað hún búi við skarðan hlut í lífinu.

Kenning hinna siðspilltu er, að þeir hafi farið halloka á einu sviði og megi því bæta sér það upp á allt öðru sviði. Ef þeir þurfi að kaupa dýra kjóla til notkunar í samkvæmum, réttlæti það á einhvern óskiljanlegan hátt, að þeir setji um sig sérstök skattsvikalög.

Með sama hætti getur hinn venjulegi þjófur úti í bæ sagt við sig, að hann eigi fjárhagslega bágt, af því að hann hafi til dæmis misst vinnuna, og þess vegna sé réttlætanlegt að hann bæti sér það upp með því að brjótast inn í næsta fyrirtæki og stela þar peningum.

Þessi yfirfærsla röksemda milli óskyldra hluta er því miður lýsandi dæmi um ástandið á Alþingi. Þar fer lítið fyrir heilbrigðri rökræðu, heldur ryðjast æ fleiri þingmenn fastar um í skefjalausri þjónustu við sérhagsmuni gæludýra úti um land og við sína eigin hagsmuni.

Alþingi skaffara og ríkisstjórn helmingaskipta eru síðbúið afturhvarf til stjórnarhátta, sem lögðust af fyrir tveimur öldum. Mismunun fer vaxandi, annars vegar milli yfirstéttar og venjulegs fólks og hins vegar milli gæludýra og venjulegra fyrirtækja eða atvinnugreina.

Flest benti til þess í sumar, að þjóðin mundi láta þessi örlög yfir sig ganga, en skattfríðindi þingmanna urðu kornið, sem fyllti skyndilega mælinn. Því miður er þetta einstök reiðisprengja, sem veitir fólki útrás, en veldur ekki varanlegum þrýstingi á siðbætur í stjórnmálum.

Það lagast ekki fyrr en kjósendur fara kerfisbundið að taka pólitíska afstöðu sem neytendur og skattgreiðendur, sem frjálsir borgarar í jafnréttis- og lýðræðisríki.

Jónas Kristjánsson

DV