Þreyja þorrann

Greinar

Alþingismenn hefðu sennilega komizt upp með að bæta kjör sín eins mikið og þeir gerðu, ef þeir hefðu ekki freistazt til að nota aðstöðu sína til að búa til sérstök skattalög fyrir sig eina, er gerðu ráð fyrir skattfrelsi tekna, sem aðrir verða að borga af skatta.

Forustumenn Alþingis og þingflokkanna reiknuðu með, að gagnrýni á gerðir þeirra yrði ekki annað en lítil bóla, sem hjaðnaði fljótt og gleymdist. Þeir höfðu í huga, að íslenzkir kjósendur hafa jafnan reynzt seinþreyttir til vandræða, þegar kemur um síðir að kosningum.

Stjórnmálamenn okkar hafa fyrir löngu séð, að kjósendur halda flestir tryggð við flokka sína, þótt reynslan sýni, að eigin- og sérhagsmunagæzla þeirra stendur fyrir flestum af þeim hremmingum, sem kjósendur verða fyrir sem neytendur, skattgreiðendur og launþegar.

Ekkert er enn komið í ljós, sem bendir til annars en, að skattsvikin verði gleymd, þegar kemur að næstu kosningum. Þess vegna ákváðu forustumenn Alþingis og þingflokkanna á föstudaginn að setja málið í biðstöðu og freista þess að þreyja þorrann meðan öldurnar lægði.

Þótt þeim takist með þolinmæði að halda sínu, hafa þeir beðið mikinn álitshnekki, sem takmarkar svigrúm þeirra til að haga sér eins og þeir hafa hingað til gert. Þeir vanmátu almenningsálitið í einu atriði við umfangsmiklar kjarabætur sínar og súpa seyðið af því.

Almenningsálitið er hvikull fugl, sem erfitt er að henda reiður á. Það rís ekki upp, þegar verið er að ræna milljörðum af kjósendum í fyrirgreiðslum vegna landbúnaðar, sem leiða til lakari lífskjara og valda því, að Íslendingar eru að dragast aftur úr og verða varanleg láglaunaþjóð.

Stjórnmálamenn okkar hafa hingað til komizt upp með að taka á hverju ári mjög marga milljarða króna úr umferð og brenna þeim á altari gæludýra af ýmsu tagi. Þessi verðmætabrennsla kemur í veg fyrir, að þjóðin geti fylgt nágrannaþjóðunum eftir í lífskjörum.

Hver, sem sjá vill, getur séð, að háar þjóðartekjur Íslendinga endurspeglast ekki í launum almennings. Hver, sem hugsa vill, getur reiknað út, að veigamesta ástæðan fyrir þessu er, að hér á landi er of stórum hluta þjóðarteknanna sóað í vitleysu á vegum stjórnmálanna.

Þorri þjóðarinnar vill ekki sjá og enn síður hugsa. Síðustu skoðanakannanir hafa til dæmis bent til, að núverandi ríkisstjórn sé mjög vinsæl, þótt hún hafi reynzt vera óvenju harðskeytt í þeirri sérhagsmunagæzlu, sem er að skuldsetja afkomendur okkar upp í topp.

Þegar stjórnmálamenn sjá, að þeir komast upp með að sóa verðmætum þjóðfélagsins, ekki bara átölulaust, heldur við fögnuð mikils hluta landsmanna, er engin furða, þótt þeir telji sig geta komizt upp með allt. Þess vegna misstigu þeir sig í skattsvikamálinu.

Þótt tjón þjóðfélagsins af skattsvikum alþingismanna sé ekki nema brotabrot af því tjóni, sem stjórnmálamenn valda þjóðinni með milljarðasukki sínu og svínaríi, fara skattsvikin sérstaklega fyrir brjóstið á fólki, sem sér saumað að sér á alla vegu með þröngum skattareglum.

Þjóðin getur nú notað lostið af skattsvikum alþingismanna til að átta sig á, að mikið og vaxandi atvinnuleysi; lág og lækkandi laun; hátt og hækkandi verð nauðsynja og vaxandi vonleysi um framtíð unga fólksins stafar að mestu af spilltum ákvörðunum stjórnmálamanna.

En þeir eru svo sannfærðir um, að þetta muni þjóðin ekki gera, að þeir ætla ekki að falla frá skattsvikunum að sinni, heldur reyna að bíða eftir að þau gleymist.

Jónas Kristjánsson

DV