Við erum lögmenn

Greinar

Lögmenn hafa stjórnað Íslandi frá upphafi. Goðar þjóðveldisaldar gegndu svipuðum hlutverkum og lögmenn nútímans. Þeir sóttu og vörðu mál og dæmdu í þeim. Þeir unnu að sáttum og stjórnuðu helztu samkundum ríkisins. Goðaveldið var eins konar lögmannaveldi.

Sáttmálar þjóðar og konungs voru skráðir og óspart vitnað til þeirra. Lagaflækjur voru líf og yndi manna á fátæktaröldum þjóðarinnar. Menn sýndu oft mikla þrautseigju í rekstri mála, fylgdu þeim á leiðarenda til Kaupmannahafnar og fengu þau stundum opnuð að nýju.

Lögmennska þjóðveldisaldar og þrautseigja fátæktaralda sameinuðust í langvinnri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, sem var ekki háð með blóði og tárum eins og annarra þjóða, heldur með endalausum hártogunum og orðhengilshætti að hætti lögmanna allra tíma.

Þannig var sjálfstæðisbaráttan frá upphafi og allt til þess er deilt var um, hvort orðið vanefndir táknaði nákvæmlega það sama og á dönsku var kallað “ikke-opfyldelse”. Síðan færðu menn sig út á hafið og unnu jafnvel þorskastríð gegn umheiminum með lögfræðilegu þjarki.

Frá upphafi sjálfstæðis hefur Íslandi verið stjórnað af lögmönnum. Þeir sækja ekki aðeins, verja og dæma í dómsvaldinu. Þeir bera í fyrirferð af öðrum stéttum í yfirstjórn og millistjórn ráðuneyta. Og þeir eru langsamlega fjölmennastir í hópi ráðandi stjórnmálamanna.

Þannig fara lögmenn fyrir þjóðinni í framkvæmda- og löggjafarvaldi ekki síður en í dómsvaldi. Þeir skipa ríkisstjórnir og móta gengi þjóðarinnar að nokkru eftir hugsunarhætti lögmanna, sem er annar en hugsun hagfræðinga og einkum þeirra, er menntazt hafa erlendis.

Í seinni tíð hefur einn þáttur orðið áberandi í lögmannaveldinu, sem ekki var þar fyrr á öldum. Hann er, að þessir ráðamenn landsins eru heimaaldir. Þeir hafa stundað allt sitt nám innanlands, en ekki verið árum saman við nám í útlöndum eins og margir aðrir.

Það er áberandi meðal hinnar lögfræðimenntuðu valdastéttar, hve vel hún kann við sig í hópi Íslendinga, en illa í hópi útlendinga. Þessir valdamenn eiga erfitt með að tjá sig á erlendum tungum og líta út eins og illa gerðir hlutir á myndum með erlendum starfsbræðrum.

Þessir áhrifamenn úr hópi lögmanna eru þjóðlegir í sér, en hallast stundum of mikið af einangrunarhyggju. Þeir líta allt öðrum augum á evrópska og alþjóðlega samvinnu en hinir gera, sem fljóta jafn auðveldlega um úti í heimi og þeir gera í fásinninu hér heima.

Raunar einskorðast þetta ekki við lögmenn, heldur er eins konar meðaltalseinkenni, sem meira ber á hjá þeim, sem dvalizt hafa allan sinn mótunaraldur í heimalandinu, heldur en hjá hinum, sem hleypt hafa heimdraganum. Lífssýn þessara tveggja hópa er ekki hin sama.

Heimalningar hneigjast til að telja allt vera bezt á Íslandi, jafnvel þótt séríslenzk vandamál skeri í augu annarra, svo sem misræmið milli hárra þjóðartekna og lélegra lífskjara og misræmið milli dálætis á hefðbundnum atvinnuvegum og hræðslu við greinar framtíðarinnar.

Þessum hugsunarhætti fylgir, að menn telja, að erlend efnahagslögmál gildi ekki á Íslandi og að bezt sé, að þjóðin búi sem mest að sínu. Þannig var haft tvöfalt krónugengi fyrir fjórum áratugum og þannig neita þeir nú að skella sér af stað í atrennu að Evrópusambandinu.

Þetta fer saman við, að íslenzk yfirstéttarhugsun hefur öldum saman ekki verið raunvísinda-, hagfræði-, markaðs- eða peningaleg, heldur einkum lögfræðileg.

Jónas Kristjánsson

DV