Hagsmunir og hugmyndir

Greinar

Þótt andstaða við tilraunir Alþingis til skattsvika þingmanna hafi komið fram í atkvæðagreiðslu hjá tveimur þingmönnum Kvennalista og einum þingmanni Alþýðubandalags, var þó þingflokkur Þjóðvaka hinn eini, er var sem heild andvígur þessu illræmda óþrifamáli.

Nú hefur komið í ljós, að kjósendur, sem kalla ekki allt ömmu sína, eru afar andvígir þessari tilraun. Það hefur mælzt í skoðanakönnunum, á útifundi um málið, í viðbrögðum verkalýðsfélaga, svo og hvarvetna, þar sem almenningur hefur komið fram og tjáð sig um málið.

Ætla mætti, að Þjóðvaki nyti þess, að harðar skoðanir fólks fara saman við afstöðu flokksins í atkvæðagreiðslum á þingi. Svo er hins vegar ekki. Á sama tíma og mótmælabylgjan hefur riðið yfir, hefur fylgi Þjóðvaka haldið áfram að hrynja og er orðið nánast ekkert.

Þvert á móti eflist stuðningurinn við þá stjórnmálaflokka, sem hafa meirihluta á Alþingi, mynda ríkisstjórn og höfðu forustu í framkvæmd óþrifamálsins, sem allur þorri þjóðarinna er andvígur. Þessi sérkennilega þverstæða minnir á sérstætt eðli stjórnmála á Íslandi.

Algengast er, að kjósendur líta ekki á landsstjórnina með augum hugmyndafræði eða réttlætis. Þeir telja, að stjórnin eigi að stjórna af myndugleik, fremur en málefnum. Þannig getur styrk og samstæð stjórn haft mikið fylgi fólks, þótt málefni hennar séu fá eða vond.

Þessi tilgáta getur skýrt, hvers vegna stjórn og flokkar helmingaskipta njóta þvílíks stuðnings, sem skoðanakannanir sýna. Fólk veit, að skipulega er verið að skara eld að köku sérhagsmuna og gæludýra af alls kyns toga, en vill þó ólmt styðja flokka helmingaskiptanna.

Almenningur virðist hins vegar ánægður með, að uppi sé höfð gagnrýni og jafnvel hvassar árásir á gerðir yfirmanna ríkis og Alþingis. Að minnsta kosti þurfa fjölmiðlar, sem birta slíka gagnrýni, ekki að sæta sömu óvinsældum kjósenda og Þjóðvaki hefur mátt sæta í haust.

Þjóðin er ekki bara ánægð með gagnrýni í fjölmiðlum. Hún er líka ánægð með neytendavæna kaupmenn, sem standa uppi í hárinu á landbúnaðarráðuneyti og öðrum hagsmunastofnunum landbúnaðarins. Hún flykkist í búðir þeirra og lítur á þá sem eins konar hetjur.

Þótt fólk telji þannig eðlilegt, að óbein stjórnarandstaða sé rekin í fjölmiðlum og jafnvel af hálfu kaupmanna, styður hún alls ekki, að hefðbundin stjórnarandstaða á Alþingi stundi stjórnarandstöðu. Fólk telur sennilega, að hlutverk hennar sé annað og annars eðlis.

Það væri í samræmi við kenninguna um hrifningu þjóðarinnar á valdinu, að hún telji hlutverk stjórnarandstöðunnar vera það eitt að komast í stjórn. Ef stjórnmálaflokkur nær ekki þeim árangri í kosningum og eftirleik þeirra, er hann afskrifaður af kjósendum sínum.

Þeir, sem ekki rekast í flokkunum, er venjulega skiptast á um að vera við völd, bíða þá eftir næsta nýflokki í næstu kosningum. Úthaldið í stuðningi við hvern nýflokk fyrir sig nær ekki út yfir fyrstu kosningar. Dæmin sýna einmitt, að lengra úthald er afar sjaldgæft.

Nýir flokkar á Íslandi eru einnota, af því að þeir komast ekki að völdum í fyrstu umferð. Þess vegna skiptast gömlu flokkarnir á um völdin. Þess vegna er þjóðin einkum sátt við stjórn þeirra tveggja flokka, er lengst ganga í að líta á stjórnmál sem friðsæl helmingaskipti.

Stjórnmál hafa löngum verið blanda hugmynda og hagsmuna. Eindregnir yfirburðir hagsmuna í stjórnmálum á Íslandi eru meiri en á Vesturlöndum almennt.

Jónas Kristjánsson

DV