Ísland tekið í bólinu

Greinar

Þegar vísindanefnd Fiskveiðinefndar Norður-Atlantshafs komst að þeirri niðurstöðu, að takmarka þyrfti rækjuveiði á Flæmska hattinum, var sæti íslenzkra vísindamanna ekki skipað. Þeir hafa síðan sett fram málefnalegar efasemdir um, að forsendur hafi verið réttar.

Það vakti undrun manna í Fiskveiðinefndinni, að sæti Íslands skyldi vera autt í svona mikilvægu máli. Íslendingar hafa veitt um fimmta hluta rækjuaflans á þessari veiðislóð og hafa því gífurlegra hagsmuna að gæta. Verðmæti þessa hluta verður 1,7 milljarðar króna í ár.

Þegar Fiskveiðinefnd Norður-Atlantshafs ákvað síðan, hvernig afli yrði takmarkaður á Flæmska hattinum, bar það mjög brátt að. Frá íslenzka sjávarútvegsráðuneytinu kom aðeins lögfræðingur, sem hafði engan stuðning að heiman, annan en símasamband við ráðuneytið.

Sambandsleysið var slíkt, að íslenzki fulltrúinn viðraði meira að segja hugmyndir um, að gengið yrði lengra í takmörkunum en gert var. Kannaði hann hug manna til þess að takmarka stærð skipa, vélarstærð og veiðarfæri og til frekari niðurskurðar á veiðidögum.

Tillaga Norðmanna og Dana flaug því í gegn og menn vöknuðu upp við vondan draum á Íslandi. Rækjuveiðar okkar manna hafa verið í örum vexti á svæðinu. Reiknað hafði verið með miklu veiðiþoli stofnsins og menn höfðu stefnt í 3,5 milljarða króna afla á næsta ári.

Nánari athuganir hafa leitt í ljós, að hér eru allir óánægðir með stuðning Íslands við nýju reglurnar. Af kvartmilljón Íslendingum fæst enginn til að tala fyrir málinu hér í blaðinu í þættinum Með og móti. Þvílík hræðsla við málstað er óþekkt fyrirbæri hér á landi.

Sjávarútvegsráðherra gufaði upp í máli þessu. Mjög seinlegt hefur verið að ná tali af honum til að leita skýringa á málatilbúnaði Íslendinga eða öllu heldur á skorti á málatilbúnaði Íslendinga. Óvenjulegt er, að reyndur stjórnmálamaður missi málið þannig allt í einu.

Vera kann, að málefnarök séu fyrir takmörkun veiða á Flæmska hattinum og fyrir þeim skömmtunaraðferðum, sem ákveðnar voru. Samkvæmt núverandi upplýsingum er þó erfitt að verjast þeirri hugsun, að sjávarútvegsráðuneytið hafi látið taka sig í bólinu.

Norðmenn voru á undan Íslendingum að afla sér veiðireynslu á svæðinu, en íslenzkir skipstjórar hafa sótt mjög á að undanförnu, einkum í ár. Það var því í þágu Norðmanna, að takmarkanir voru ákveðnar, áður en íslenzki aflinn færi fram úr norska aflanum.

Fulltrúar Norðmanna yppta nú öxlum og segja of seint í rassinn gripið, ef Íslendingar ætli að rifta samkomulagi, sem þeir hafi samþykkt. Þar með sé upplýst, að Íslendingar séu ekki viðræðuhæfir á fjölþjóðlegum vettvangi og ekki verði framar tekið mark á þeim.

Þetta mál minnir á dapurlega frammistöðu og einkum fjarveru samgönguráðuneytis, Pósts og síma og Ríkisútvarpsins, þegar ákveðið var að hafa íslenzku bókstafina ekki með í evrópskum fjarskiptastaðli um textaboðkerfi og í evrópskum staðli um textavarp sjónvarps.

Íslenzkir ráðherrar, ráðuneytisstjórar, deildarstjórar og forstöðumenn ríkisstofnana liggja í stöðugum ferðalögum í útlöndum án takmarks eða tilgangs. Af þessum ferða- og veizluglöðu mönnum fréttist úr öllum álfum, frá Malaví til Peking, snapandi veizlur, hopp og hí.

En ráðuneytin og stofnanirnar hafa ekki peninga til að vera með, þegar verið er að undirbúa og taka ákvarðanir á fjölþjóðavettvangi um brýna hagsmuni Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV