Góð forsetaefni

Greinar

Núna eins og jafnan áður mun koma í ljós, að ekki er skortur á hæfum forsetaefnum á Íslandi. Fyrstu kannanir á fylgi þekktra einstaklinga benda til, að val á prýðilega hæfu fólki til framboðs í forsetakosningum verði að þessu sinni ekki erfiðara en venjulega hefur verið.

Skoðanakönnun DV í gær bendir til, að fólk hafi þegar tekið fremur jákvæða afstöðu til ýmissa einstaklinga, er nefndir hafa verið að undanförnu sem æskilegir frambjóðendur. Samt er ekki liðinn nema hálfur mánuður síðan ljóst varð, að forsetakosningar yrðu í vor.

Reikna má með, að hugmyndir um enn aðra einstaklinga eigi eftir að koma í ljós á næstu vikum, því að nægur tími er til stefnu og fólk er enn að átta sig á, að val á nýjum forseta verður raunverulegt verkefni á næsta ári. Tilnefningar verða því nægar, þegar framboð hefjast.

Hitt er fremur líklegra, að ástæða sé til að hvetja stuðningsmenn hinna tilnefndu einstaklinga til að fara varlega í sakirnar á þessu stigi málsins, svo að frambjóðendur verði ekki of margir. Tveir eða þrír frambjóðendur eru af ýmsum ástæðum æskilegri en fjórir eða fleiri.

Því fleiri, sem frambjóðendur eru, þeim mun meira dreifist fylgið og þeim mun minni möguleikar verða á eindreginni kosningu næsta forseta. Það styður nýjan forseta í fyrstu skrefum hans að hafa náð kjöri með miklu fylgi, sem næst tæpast með mörgum frambjóðendum.

Fæstir þeirra, sem tilnefndir hafa verið, hafa tekið afstöðu til þess, hvort þeir geti hugsað sér að fara í framboð. Líklegt er, að sumir þeirra, sem ofarlega eru í hugum fólks, eigi erfitt með að sætta sig við tilhugsunina um að taka ábyrgð forsetaembættisins á herðar sínar.

Hinir eru svo enn fleiri, sem eiga erfitt með að sætta sig við óþægindin af langri kosningabaráttu, er kallar á fjölmennan hóp stuðningsfólks, sem er reiðubúið til að leggja fram tíma eða fé til baráttunnar. Ýmsir hinna tilnefndu munu því ekki fallast á að fara í framboð.

Bezt er, ef niðurstaðan verði sú, að einungis tveir eða þrír fari raunverulega í framboð, þegar skýrt er orðið, að þeir njóta víðtæks stuðnings í skoðanakönnunum og að í kringum þá safnast nokkur fjöldi stuðningsfólks, sem er tilbúið að standa undir framboðinu.

Málið er í ágætis farvegi. Núverandi forseti hefur skýrt frá ákvörðun sinni með hæfilegum fyrirvara, svo að val á nýjum forseta fær rúman meðgöngutíma. Fyrstu tvær vikur þess tíma benda til, að hann nýtist vel og málið fái farsælan endi að þessu sinni sem jafnan áður.

Þess verður oft vart, þegar forseti hefur verið kosinn, að fólk á erfitt með að hugsa sér annan forseta en þann eina. Þetta leiðir til þess, að seta á erfiðum forsetastóli verður lengri en æskilegt er. Það er ekki auðvelt að sitja undir slíku álagi í þrjú eða fjögur kjörtímabil.

Hingað til hefur verið tilhneiging til að ætlast til þess af forseta, að hann sitji sem lengst. Við sjáum hins vegar af umræðu síðustu tveggja vikna, að of mikið er gert úr erfiðleikum þjóðarinnar við að skipta um forseta. Það kemur maður í manns stað á þessu sviði sem öðrum.

Reynslan sýnir líka, að of mikið hefur verið gert úr sárindum og sundrungu, sem getur fylgt því, að margir eru kallaðir og aðeins einn útvalinn. Komið hefur í ljós, að vandamál af því tagi leysast fljótlega af sjálfu sér. Eftirleikur kosningabaráttu er tímabundinn vandi.

Íslendingar eiga við margvísleg vandamál að stríða. Val á nýjum forseta er ekki í þeim hópi. Það getur þvert á móti orðið þjóðinni ánægjulegt verkefni í vetur.

Jónas Kristjánsson

DV