Listinn sem ekki er til

Greinar

Listinn yfir hæst launuðu starfsmenn ríkisins og greiðslur ríkissjóðs til þeirra er enn ríkisleyndarmál, þótt margir hafi hvatt til birtingar hans, þar á meðal forsætisráðherra og félagsráðherra. Fjármálaráðherra hefur lagt sig fram um að komast hjá birtingu hans.

Athyglisvert er, að fjármálaráðherra neitar í öðru orðinu tilvist lista, sem samráðherrar hans fjalla um sem raunveruleika, og rekur í hinu orðinu hverjir séu á þessum lista, sem hann neitar, að sé til. Með þessu hefur hann slegið persónulegt met í tvöföldu orðalagi.

Listinn er ófullkominn, af því að hann nær aðeins til greiðslna úr ríkissjóði, en ekki til stofnana í svonefndum B-hluta fjárlaga. Þess vegna vantar marga opinbera starfsmenn á listann og hjá sumum eru ekki skráðar þar allar greiðslur, sem þeir fá hjá stofnunum ríkisins.

Eðlilegt er að bætt sé úr þessu og allar launagreiðslur á vegum ríkisins og einstakra stofnana þess verði dregnar saman í einn lista, svo að sjá megi rétta heildarniðurstöðu í málinu. Það er eðlilegt framhald af trúnaðarbresti, sem orðinn er í kjaramálum þjóðfélagsins.

Ráðherrar hafa látið í ljósi efasemdir um, að rétt sé að birta listann með nöfnum, heldur nafnlausan og þá með einstökum starfsstéttum í pökkum. Slík nafnleynd er eðlileg á millistigum kerfisins, en gengur ekki á toppnum, þar sem menn hafa aðstöðu til uppgripa á tekjum.

Valdamiklir embættismenn hafa komizt upp með að láta ríkið greiða sér mun meiri tekjur en hingað til hefur verið gefið í skyn, að þeir fái hjá ríkinu. Þeir hafa notað til þess Kjaradóm og Kjaranefnd og búið til margvíslegar sjónhverfingar á borð við ómælda og óunna yfirvinnu.

Kjaradómur og Kjaranefnd hafa ekki orðið við ósk forsætisráðherra um að birta forsendur niðurstaðna sinna. Það stafar af, að forsendurnar halda ekki vatni. Þessar leynistofnanir í þágu embættismanna eru því rúnar öllu trausti og hafa glatað tilgangi sínum.

Listinn frægi, sem stundum er til og stundum ekki til, sýnir, að tveir opinberir starfsmenn fá hvor um sig meira en sex milljónir króna á ári af A-hluta fjárlaga. Þegar tölur eru orðnar svo háar, er ekki lengur hægt að verja, að þær séu einkamál, sem ekki megi birta.

Eðlilegt er að setja eitthvert birtingarmark, til dæmis við fjórar milljónir á ári og miða þá við samanlagðar tekjur manna hjá ríkinu og stofnunum þess. Stjórnmálamenn þurfa að sæta birtingu tekna sinna, þótt þeir hafi í mörgum tilvikum mun lægri tekjur en fjórar milljónir.

Reglur um nafnleynd í kjaramálum eiga aðeins að ná til venjulegra starfsmanna. Þegar þeir eru komnir í valdaaðstöðu, sem meðal annars felur í sér völd til að hafa áhrif að tjaldabaki á eigin tekjur, á ekki að vera lengur hægt að skjóta sér á bak við nafnleynd.

Listinn frægi sýnir, að það eru ekki stjórnmálamennirnir, sem eru lagnastir við að framleiða tekjur handa sér umfram skráð laun. Það eru fyrst og fremst þeir, sem ráða ferðinni að tjaldabaki, embættismennirnir, sem eru stórtækastir og hugmyndaríkastir í sjálfsbjörginni.

Stjórnmálamenn telja sig raunar eina hafa orðið blóraböggul fyrir tekjubrask, sem embættismenn hafi ekki síður stundað. Þeir hafa því rekið á eftir því, að listinn frægi yrði birtur. Þess vegna er að bresta þagnarmúrinn um leynilega fengnar tekjur embættismanna ríkisins.

Þegar hagsmunir stjórnmálamanna og embættismanna hafa þannig skilizt í sundur, er hugsanlegt, að leynimakkið verði að víkja fyrir almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV