Fjármunir taldir fólki æðri

Greinar

Kveðnir voru upp tveir athyglisverðir dómar í vikunni. Annars vegar var dæmt í fimmtán mánaða fangelsi fyrir manndráp og hins vegar í átján mánaða fangelsi fyrir 2,7 milljón króna fölsun. Af þessu má ráða, að kerfið meti mannslífið á tvær og hálfa milljón króna.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið vakin athygli á öðrum dómum, sem sýna, að löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið í landinu líta strangari augum á auðgunarbrot en ofbeldisbrot. Þetta eru leifar þess tíma, er fjármunir voru fólki æðri.

Hér er ekki haldið fram, að annar dómurinn sé vitlausari en hinn, heldur að saman sýna þeir misræmi, sem endurspeglar ekki á þá staðreynd, að samkvæmt almennri siðfræði Vesturlanda nútímans er maðurinn æðra fyrirbæri en dauðir hlutir á borð við peninga.

Burtséð frá deilum um, hversu þungir eða léttir dómar eigi að vera, ætti að geta verið samkomulag um, að peningar séu bara peningar, en mannslíf sé þó mannslíf. Því miður verður þessa innsæis ekki vart í lögum Alþingis, ákærum saksóknara og úrskurðum dómstóla.

Vandamálið byrjar í ráðuneytunum. Þar eru samin lagafrumvörp, sem gera ráð fyrir, að stuldur sé verri en ofbeldi. Þessi frumvörp gerir Alþingi síðan að lögum. Ákæruvaldið fer svo í lægri kantinn í kröfum í ofbeldismálum og endahnútinn binda svo dómstólarnir.

Verstur er þáttur dómstólanna, þar á meðal Hæstaréttar. Í þessum stofnunum hefur mótazt sú venja, að heimildir til þyngdar refsingar eru notaðar að mjög litlu leyti í ofbeldismálum, en að miklu leyti í peningamálum. Siðgæðis-innsæi dómara er áfátt á öllum dómstigum.

Verst er ástandið í nauðgunarmálum. Ástæða er til að vara konur eindregið við að kæra nauðgun, því að það kostar endurteknar nauðganir, fyrst í yfirheyrslum hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins og síðan af hálfu dómarastéttarinnar. Og ástandið hefur síður en svo lagazt.

Að baki hinna krumpuðu viðhorfa í valdakerfinu er forneskjuleg hugsun yfirstétta fyrri alda, sem byggðu rammskakkt réttarkerfi til að varðveita eigur sínar fyrir undirstéttunum, en höfðu minni áhyggjur af innbyrðis ofbeldi og manndrápum innan undirstéttanna.

Afleiðing misræmisins er, að ofbeldi og ómennska veður uppi í þjóðfélaginu. Frægt er ástandið í miðbæ Reykjavíkur, sem ekki er manngengur að næturlagi um helgar, af því að lögreglan sinnir ekki skyldum sínum. Ekki eru dæmi um slíkt í miðbæjum annarra höfuðborga.

Í vikunni gerði auðnuleysingi misheppnaða tilraun til að ræna banka. Daginn eftir var búið að keyra málið á fullu og kveða upp dóm yfir honum. Þessi hraði á misheppnuðu auðgunarmáli stingur mjög í stúf við almennan og vítaverðan seinagang í dómsmálum hér á landi.

Seinlætið er almennt svo mikið, að fólk nær ekki rétti sínum fyrir dómstólum. Fræg eru dæmin um, hvernig tryggingafélögunum hefur tekizt að tefja árum saman, að fólk fái lögboðnar bætur fyrir örorku sína, svo að það neyðist til smánarsamninga utan réttarsala.

Óöryggið og misræmið á þessum sviðum fer saman við geðþóttaákvarðanir embættis- og stjórnmálamanna í framkvæmdavaldinu. Allt leiðir þetta saman í þann farveg, að Ísland getur ekki talizt heilbrigt réttarríki, heldur gróðrarstía ranglætis, ójafnaðar og siðleysis.

Moka þarf flórinn á þessum sviðum, fá siðaða dómara til starfa, hraða gangi dómsmála, svo og setja manngildi ofar auðgildi í verðmætamati laga og dómsúrskurða.

Jónas Kristjánsson

DV