Forviða ferðafólk

Greinar

Þegar skemmtiferðaskipið Royal Viking Sun var hér í sumar, birtist grein í dagblaði farþeganna um verðlagið á Íslandi. Greinin var öll í vinsamlegum tón og reyndi að útskýra, að rosalegt verðlag væri ekki okurfíkn Íslendinga að kenna, heldur sérstökum aðstæðum í landinu.

Greinin er gott dæmi um eitt helzta umræðuefnið í samskiptum leiðsögufólks og ferðafólks. Aðkomufólk á Íslandi er forviða á verðlaginu og leiðsögufólk reynir að útskýra, hvernig standi á ósköpunum. Ísland er eina vestræna landið, þar sem þetta er aðalumræðuefnið.

Ef farið er í ferðabókabúðir í útlöndum og flett leiðsögubókum um Ísland eða bókarköflum, þar sem Íslands er getið, sker alls staðar í augu, að varað er við ofurháu verðlagi á Íslandi. Þeir, sem skoða slíkar upplýsingar, eru ekki líklegir til að þora að koma hingað.

Íslendingar geta séð sjálfa sig í sporum erlends ferðafólks, sem er að kynna sér ferðalög til Íslands. Við mundum hugsa okkur um tvisvar áður en við færum til lands, sem hefði sérstakt orð á sér fyrir að vera dýrara en nokkurt annað land í Evrópu og Ameríku samanlagt.

Þeir, sem komast yfir þennan aðvörunarmúr og stefna ótrauðir til Íslands, eru þó ekki betur undirbúnir á þessu sviði en svo, að leiðsögumenn þurfa sífellt að svara furðu lostnu ferðafólki eða vara það við verðlaginu í tæka tíð, svo sem dagblað skemmtiferðaskipsins gerði.

Þetta hefur þær beinu afleiðingar, að erlent ferðafólk á Íslandi er mun færra en það væri ella og að það ferðafólk, sem kemur, heldur mun fastar um pyngjuna en það mundi ella gera. Þetta er alvarlegt mál, sem skaðar þjóðarhag, en er engan veginn versta afleiðing verðlagsins.

Verra er, að Íslendingar þurfa sjálfir að sæta þessu sama verðlagi með tilsvarandi skerðingu lífskjara, óhóflegri vinnu og taugaveiklun. Við sitjum dag eftir dag og ár eftir ár í súpunni, sem hræðir ferðafólk frá því að koma hingað í nokkra daga og að kaupa hér nauðsynjar.

Verst af öllu er, að við erum orðin samdauna þessu. Flestum Íslendingum finnst verðlagið í landinu vera eins konar náttúrulögmál á svipaðan hátt og flestum fannst haftakerfi og gjaldeyrisskömmtun vera óviðráðanlegt náttúrulögmál, áður en slíkt var snögglega aflagt.

Á fyrstu árum Viðreisnarstjórnarinnar þorðu ráðamenn að höggva drauga fortíðarinnar. Nú vantar hins vegar pólitískan viljastyrk til að takast á við slíka drauga. Stjórnmálamenn nútímans þora ekkert og allra sízt að hrófla við forsendum matvælaverðsins í landinu.

Dagblað skemmtiferðaskipsins rakti, hvernig bannað er að flytja inn búvöru, sem telst í samkeppni við innlenda búvöru, og hvernig offramleiðslu er haldið uppi í óhagkvæmum landbúnaði, sem framleiðir of dýrar vörur fyrir neytendur á kostnað skattgreiðenda.

Dagblað skemmtiferðaskipsins gerði ekki grín að þessari heimsku Íslendinga, heldur spurði í einlægni, hvernig Íslendingar færu yfirleitt að að lifa við þessar aðstæður, sem lýstu sér í margþættum vandræðum, lágum launum, háum sköttum, dýru verði og miklum skuldum.

Nokkur raun er að þurfa að lesa texta, sem lætur í ljós samúð með Íslendingum sem svo greindarskertu og undirgefnu fólki, að það sætti sig við að líta á óeðlilegar aðstæður sem náttúrulögmál og geri ekki byltingu gegn kerfinu, sem er myllusteinn um háls þess.

Þótt ferðamenn séu sífellt að reka upp stór augu yfir ástandinu á Íslandi, er meirihluti heimamanna enn samdauna kerfisbundinni framleiðslu fátæktar í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV