Atgervisflóttinn vex

Greinar

Háskólarektor vakti um helgina athygli á tölum um atgervisflótta frá Íslandi, sem sýna, að erlendis búa 15% þeirra, sem útskrifuðust á tíu ára tímabili frá Háskóla Íslands, 1979-1988. Fjölmennastir í þessum hópi eru læknar og raunvísindamenn, svo og hugvísindamenn.

Öruggt má telja, að hlutfall atgervisflóttans sé mun hærra hjá þeim Íslendingum, sem útskrifuðust á þessu tímabili frá erlendum háskólum og tóku aldrei upp þráðinn hér heima, sumpart vegna þess að tækifæri eru lítil, atvinnuvegir einhæfir og laun háskólafólks léleg.

Framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs hefur lýst áhyggjum af ástandinu, sem háskólarektor rakti. Hann telur, að viðhorf gömlu atvinnuveganna sé neikvætt í garð háskólamenntunar og að það endurspeglist í stofnunum þjóðfélagsins, þar á meðal í fjármálastofnunum.

Háskólinn var seinn að átta sig á, hverjar væru þarfir atvinnulífsins. Lengst af miðaðist framboð hans á námi einkum við embættisþarfir þjóðfélagsins. Hann framleiddi einkum lækna og lögfræðinga, presta og kennara, sem komu atvinnulífi að takmörkuðu gagni.

Þetta hefur verið að lagast í seinni tíð, en þá koma í ljós rótgrónar efasemdir í atvinnulífinu um, að fólk úr nýjum kennslugreinum í gömlum embættismannaskóla geti tekið til hendinni. Erfitt hefur reynzt að þvo skrifborðs- og hvítflibbastimpilinn af Háskólanum.

Verra er, að afturhaldssemi er rík í þjóðfélaginu og ræður gerðum valdamanna þjóðarinnar. Ef tala má um pólitískar forsendur valdakerfisins, þá felast þær í að vernda gamlar atvinnugreinar fyrir nýjum, þótt sú stöðnun geri landið að varanlegu láglaunasvæði.

Einum eða tveimur tugum milljarða er til dæmis sóað til einskis á hverju einasta ári til að reyna að fresta hruni hinna hefðbundnu þátta landbúnaðarins. Það fé er ekki notað til að hlúa að nútímalegum atvinnuvegum, sem þurfa á að halda vel stæðu háskólafólki.

Afturhaldssemi stjórnvalda og þjóðar veldur því til dæmis, að skilyrði fyrir hugbúnaðarframleiðslu og margmiðlun eru lakari hér en í samkeppnislöndum okkar beggja vegna Atlantshafsins. Það kemur m.a. fram í hægari og dýrari tölvusamskiptum hér á landi.

Hinar dýru aðgerðir ráðamanna ríkisins við varðveizlu fortíðar í atvinnuháttum hafa svelt getu þess til að greiða vísindamönnum hins opinbera mannsæmandi laun. Þetta kemur fram í kjörum háskólakennara og sérfræðinga við rannsóknastofnanir ríkisins.

Margir hinna hæfustu hafa því leitað á önnur mið og náð árangri, sumpart vegna þess að nýju og framsæknu háskólagreinarnar eru alþjóðlegar að eðlisfari, nýtanlegar um heim allan, og sumpart vegna þess, að hinir hæfustu geta komið hæfni sinni á framfæri í útlöndum.

Að stofni til er þessi vítahringur fyrst og fremst pólitískur. Vitsmunalegir undirmálsmenn stjórna afturhaldssamri þjóð og geta engan veginn lyft sér upp úr þrengstu hagsmunagæzlu fyrir hin hefðbundnu gæludýr kerfisins. Hér felst pólitík í dreifingu herfangs.

Að meirihluta er þetta í samræmi við vilja þjóðar, sem er með mosann í skegginu og velur sér nærri eingöngu Framsóknarflokka til stjórnar. Ekkert gerist meðan þjóðin vill, að tilvera sín snúist um varðveizlu eins konar Árbæjarsafns fyrir landbúnað í miðju Atlantshafi.

Sumir kunna sitthvað, sem stofnanir og fyrirtæki í útlöndum vilja kaupa dýru verði. Þeir freistast auðvitað til að flýja lygnan poll stöðnunar og afturhalds.

Jónas Kristjánsson

DV