Ofstækið afhjúpað

Greinar

Morðið á Itzhak Rabin heftir ekki hina hægu friðarþróun í Palestínu og Ísrael. Það mun þvert á móti spilla tækifærum róttækra friðarandstæðinga meðal Ísraelsmanna til að halda áfram að grafa undan friði. Ísraelsmönnum verður mörgum ljós leikur þeirra að eldinum.

Hinir hófsamari meðal Ísraelsmanna sjá, að morðið á Rabin er afleiðing múgsefjunar, sem róttækir friðarandstæðingar meðal Ísraelsmanna hafa kynt undir á undanförnum árum. Þeir sjá, að tímabært er að stinga við fótum og reyna að verjast áhrifum ofstækismannanna.

Slagkraftur róttæklinganna er fyrst og fremst í landnemabyggðum Ísraelsmanna í Palestínu. Þar hefur myndazt krumpað hatursþjóðfélag vopnaðra og ofsatrúaðra yfirgangsmanna, sem staðið hafa í vegi samkomulags Ísraelsmanna og Palestínumanna um frið.

Byggð ísraelskra landmena í Palestínu er ólögleg samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, sem Ísrael hefur staðfest. Óheimilt er að koma á fót slíku landnámi í hernumdum löndum. Stjórnir Ísraels hafa um langt árabil að þessu leyti gerzt sekar um glæp gegn mannkyninu.

Meðferð stjórnar Ísraels á Palestínumönnum á hernumdu svæðunum stríðir einnig gegn alþjóðlegum sáttmálum, sem Ísrael hefur staðfest. Þar á meðal eru pyndingar í fangelsum, sem krumpuð lög Ísraels leyfa og sannanlega hafa óspart verið notaðar á undanförnum árum.

Töluvert vantar á, að fjölmiðlar á Vesturlöndum geri sér og öðrum grein fyrir raunveruleikanum í Palestínu. Sem dæmi um það má nefna, að fréttastofa íslenzka ríkissjónvarpsins kallar það “skotbardaga”, þegar Ísraelsher og landnemar skjóta óvopnaða Palestínumenn.

Fyrir tilverknað ólöglegs landnáms í Palestínu, úlfúðar í kjölfar þess og ólöglegra aðgerða Ísraelsstjórnar gegn andófi Palestínumanna hefur þjóðarsálin í Ísrael verið að afmyndast. Ísraelsmenn hafa verið að breytast í átt til herraþjóðar að hætti Þýzkalands Hitlerstímans.

Algengt er, að Ísraelsmenn líti á Palestínumenn sem hunda og umgangist þá sem slíka. Ofbeldishneigðir Ísraelsmenn vaða vopnaðir um byggðir Palestínumanna og hreykja sér á sama hátt og SS-sveitir Hitlers gerðu á hernumdum svæðum í síðari heimsstyrjöldinni.

Á hernumdu svæðunum hefur myndazt hættuleg ofstækisblanda, sem leitar stuðnings hjá hinum grimma og hefnigjarna guði Gamla Testamentisins og hugmyndinni um hina drottins útvöldu þjóð, sem rýfur múra Jeríkó og útrýmir nágrönnum með aðstoð drottins.

Trúarrugl og aðstæður á hernumdu svæðunum sameinast í að framleiða skrímsli á borð við það, sem myrti Rabin forsætisráðherra. Óhjákvæmilegt er, að ríki, sem lætur ofbeldi og ofstæki viðgangast og ræktar það jafnvel, verði að sæta óvæntum afleiðingum af slíku tagi.

Tvö öfl birtu og myrkurs hafa lengi togazt á í Ísrael og hefur ýmsum veitt betur. Stjórn Ísraels hefur miðað hægt við að framkvæma þegar undirritaða samninga um framgang friðarferilsins í Palestínu. Hvað eftir annað hefur hún farið langt fram úr samþykktum tímamörkum.

Málinu hefur þó miðað fram hægt og bítandi. Ástandið fyrir morðið á Rabin var orðið mun friðvænlegra og traustara en það hafði verið um langt árabil. Og morðið mun enn frekar opna augu manna fyrir hættunum af trúarofstæki og vopnaofstæki ísraelskra landnema.

Til skamms tíma mun morðið þjappa saman fleiri Ísraelum en ella um varnir gegn friðarspillum úr eigin röðum og efla hægfara friðarþróun Ísraels og Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV