Komið á kortið

Veitingar

Þótt Michelin sé fremur snobbaður mælikvarði á gæði matarhúsa, hefur hann mest gildi í augum þeirra, sem eiga húsin og matreiða þar. Ísland hefur, um leið og Færeyjar, fengið sinn fyrsta stað með einni Michelinstjörnu af þremur mögulegum. Það eru Dill í Reykjavík og Koks í Kirkjubæ í Færeyjum. Ekki er minna virði, að Matur & drykkur fær einn Michelin-karl, Bib Gourmand, fyrir hágæða mat á hóflegu verði. Fram að þessu hefur Íslands hvergi verið getið í bókum Michelin. Nú er kominn Michelin Nordic, þar sem Ísland er komið á blað með minnisstæðum hætti. Dregur ekki úr straumi ferðamanna, þótt flestir noti alþýðlegri leiðbeiningar.