Vaxandi velgengni

Greinar

Notkun fjölmiðla fer vaxandi samkvæmt niðurstöðum nýjustu fjölmiðlakönnunar Félagsvísindastofnunar, einkum dagblaða og sjónvarps. Einna mest er aukningin hjá DV, sem hefur samkvæmt sömu tölum hækkað um þrjú prósentustig frá því í marz og fram í október.

Morgunblaðið hefur staðið í stað á sama tíma, svo að heildarnotkun dagblaða hefur aukizt á tímabilinu. Einna mest hefur breytingin orðið á helgarblaði DV, sem hefur hækkað úr 50% lestri í 56% lestur á þessu hálfa ári. Sex prósentustiga aukning er mikil á svo skömmum tíma.

Vaxandi lestur DV endurspeglar töluverðar endurbætur, sem gerðar hafa verið á einstökum efnisþáttum blaðsins og verið er að gera um þessar mundir. Þegar þessum endurbótum lýkur, verður DV væntanlega mun betur en áður búið undir að mæta þörfum lesenda sinna.

Helgarblað DV var einna fyrst á ferðinni í haust í þessum endurbótum, enda hefur lestur þess aukizt mest. Miklar breytingar hafa einnig verið gerðar á þriðjudagsblaði DV, en þær eru alveg nýjar af nálinni og skila sér væntanlega betur í síðari fjölmiðlakönnunum.

Tölur Félagsvísindastofnunar eru einkar athyglisverðar í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu. Síðustu árin hafa verið erfið öllum almenningi. Fólk hefur þurft að spara meira við sig en oftast áður. Búast hefði mátt við, að þessi samdráttur kæmi fram í minni notkun fjölmiðla.

Ef litið er yfir gamlar og nýjar tölur fjölmiðlakannana, sést vel, hversu traust er staða stóru fjölmiðlanna. Sjö öflugir fjölmiðlar hafa lengi náð hver fyrir sig til augna og eyrna mikils meirihluta þjóðarinnar, tvær sjónvarpsstöðvar, tvö dagblöð og þrjár útvarpsstöðvar.

Ef notaðar eru tölur síðustu fjölmiðlakönnunar um, hversu mikill hluti þátttakenda notaði fjölmiðlana eitthvað á einu ári, sést, að Ríkissjónvarpið er notað af 98% landsmanna, Stöð 2 af 91%, Rás 2 af 90%, Morgunblaðið af 88%, DV af 86%, Gufan af 82% og Bylgjan af 81%.

Sennilega er sjaldgæft annars staðar í heiminum, að svona margir fjölmiðlar hafi svona mikla og langvinna útbreiðslu meðal heillar þjóðar. Þetta þýðir í raun, að fólkið í landinu býr ekki við sams konar fáokun á þessu sviði og hún býr því miður við á mörgum öðrum sviðum.

Mikilvægt er fyrir þjóðfélagið, að fólk hafi aðgang að fjölbreyttum fjölmiðlum, sem eru innbyrðis ólíkir og spegla þjóðfélagið með margvíslegum hætti. Þetta eykur þekkingu þjóðarinnar á því, sem er að gerast innan lands og utan og treystir þannig lýðræðið í landinu.

Mikilvægur hluti þessarar fjölbreytni felst í, að landsmenn notfæra sér aðgang að fimm öflugum og fullburðugum fréttastofum, sem spanna fréttir frá öllu landinu og frá útlöndum. Þetta þýðir, að enginn einn valdaaðili getur ákveðið, hvað sé fréttnæmt og hvað ekki.

Þessi góða staða hér á landi væri ótrygg, ef mikið ójafnvægi væri í styrk stóru fjölmiðlanna, þannig að einhver þeirra eða einhverjir þeirra væru á undanhaldi í samkeppninni. En staðan er einmitt trygg, af því að ótrúlega mikið jafnvægi er í útbreiðslu stærstu sjö fjölmiðlanna.

Langt er síðan kom í ljós, að hér á landi er rúm fyrir tvö stór dagblöð, tvær stórar sjónvarpsrásir og þrjár stórar útvarpsrásir. Engin ástæða er til að efa, að svo verði áfram enn um skeið. Raunar bendir stofnun nýrra sjónvarpsrása til, að möguleikarnir séu ekki fullnýttir.

DV ætlar sér góðan hlut að þessu mynztri á næstu árum. Því mun blaðið laga sig á hverjum tíma að breyttum þörfum þjóðar, sem lifir í hraðri tímans rás.

Jónas Kristjánsson

DV