Vilji er allt sem þarf

Greinar

Með friðarsamningum erfðaríkja Júgóslavíu hafa Bandaríkin á ný tekið upp forustuhlutverk sitt sem eina heimsveldið. Þau hafa tekið við evrópsku klúðri og knúið málsaðila til að semja um niðurstöðu, sem unnt verður að láta þá standa við með góðu eða illu.

Ekkert er í sjálfu sér að marka undirskriftir málsaðila frekar en fyrri daginn. Þess vegna skiptir máli, að samkomulagið felur í sér, að komið verður í fyrsta skipti upp alvöru friðargæzlu á ófriðarsvæðunum, svo að friðargæzluliðar verða ekki framar gíslar óaldarmanna.

Sextíu þúsund manna herlið Atlantshafsbandalagsins í Bosníu og Króatíu verður grátt fyrir járnum og hefur ströng fyrirmæli um að láta óaldarlýðinn ekki hafa sig að fífli, svo sem hingað til hefur verið raunin hjá misheppnaðri friðargæzlu Sameinuðu þjóðanna á svæðinu.

Aðeins einni mikilvægri spurningu er ósvarað. Hún fjallar um úthald Bandaríkjamanna. Það hefur reynzt afar lítið í fyrri vandræðamálum af þessu tagi, svo sem dæmin sýna frá Líbanon og Sómalíu. En ástæða er til að ætla, að málið sé mun betur undirbúið núna.

Friðurinn í Bosníu er ekki sanngjarn, en hann er friður. Serbar fá of mikið land út úr samningunum. Verra er þó, að samningamenn Bandaríkjamanna hafa undir borðið fallizt á að reyna að bregða fæti fyrir, að verstu stríðsglæpamenn Serba verði dregnir fyrir dóm.

Bandaríkjastjórn lét stríðsglæpadómstólnum í Haag ekki í té loftmyndir af fjöldagröfunum í Srebrenica fyrr en blöðin voru farin að segja frá myndunum og hefur enn ekki látið dómstólinn hafa mikilvægar hleranir af símtölum milli Milosevic, Karadzic og Mladic.

Hafa verður í huga, að þeir þremenningar eru áreiðanlega ekki minni stríðsglæpamenn en þeir, sem voru hengdir eftir réttarhöldin í N”rnberg, ef tillit er tekið til hins skamma tíma, sem þremenningarnir hafa haft til verka sinna. Þeir verða blettur á heiðri Nató.

Ekki verður á allt kosið, þegar áður er búið að klúðra málum. Ef frönsk og einkum þó brezk stjórnvöld hefðu ekki tregðazt við að sýna Serbum í tvo heimana, meðan þessi ríki höfðu forustu fyrir Vesturlöndum í máli þessu, hefði aðeins brot stríðsglæpanna verið framið.

Engin furða er, þótt Bandaríkin hafi ekki viljað taka þátt í brezk-frönskum fíflaskap varnarlauss friðargæzluliðs á landi, og lagt áherzlu á, að Serbar yrðu teknir í gegn úr lofti. Enda kom í ljós, að koma þurfti friðargæzluliðinu í skjól til að geta hafið lofthernað.

Mál þetta hefur sannað, að Vestur-Evrópa er ófær um að taka við hlutverki Bandaríkjanna sem gæzluaðili friðar í eigin heimshluta. Annaðhvort er í Evrópu bandarískur friður eða alls enginn friður. Bandaríkin eru eini aðilinn, sem hefur siðferðisþrótt til slíks hlutverks.

Hernaðarlega var Bretland eitt sér eða Frakkland eitt sér fært um að knýja fram þann frið, sem nú er orðinn í erfðaríkjum Júgóslavíu. En þau höfðu ekki til slíks þrótt, hvorki ein sér, saman eða í samlögum við önnur lönd í samtökum á borð við Evrópusambandið.

Friðurinn hefur endurvakið Atlantshafsbandalagið, sem var komið að fallanda fæti eftir hvarf Sovétríkjanna og var búið að afla sér háðungar í þjónustunni hjá Sameinuðu þjóðunum við friðargæzlu. Nú fær bandalagið aftur hlutverk, sem gefur því framhaldslíf að sinni.

Aftur og aftur sjáum við í veraldarsögunni, að efnahags- og hernaðarmáttur skiptir litlu í samanburði við innri styrk. Vilji er raunar allt sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV