Byrjar Evrópa hér?

Greinar

Til skamms tíma hafa margir íslenzkir stjórnmálamenn vonað, að Norðurlönd Evrópusambandsins mundu ekki gerast aðilar að Schengen-samkomulaginu um sameiginleg ytri landamæri, án þess að um leið yrði varðveitt gamla Norðurlandasamstarfið á sama sviði.

Nú er hins vegar að koma í ljós, að Danmörk, Finnland og Svíþjóð munu ekki bíða eftir Íslandi og Noregi. Ríkin þrjú í Evrópusambandinu telja sig hafa svo mikilla hagsmuna að gæta á meginlandi Evrópu, að þau geti ekki lengi neitað sér um aðild að samkomulaginu.

Meira máli skiptir fyrir Danmörku, Finnland og Svíþjóð að hafa sameiginleg landamæri með Evrópusambandinu öllu heldur en að hafa samning um vegabréfafrelsi við Ísland og Noreg. Þetta mál sýnir í hnotskurn meira aðdráttarafl evrópsks en norræns samstarfs.

Á öllum hagkvæmnissviðum er norrænt samstarf dauðans matur öðruvísi en sem norrænt samstarf innan Evrópu. Hnignunareinkennin hafa lengi verið ljós á norrænu samstarfi, því að fátt merkilegt hefur gerzt á því sviði á meðan evrópskt samstarf geysist fram.

Til þess að leysa málið hefur Íslandi og Noregi verið boðin aðild að tilraunum til að finna leið fyrir þessi tvö lönd til að vera innan sameiginlegra landamæra Evrópusambandsins. Það þykir fýsilegur kostur, en kostar umfangsmiklar breytingar á flugstöð Keflavíkurvallar.

Við þurfum að sjá um, að óæskilegt fólk komist ekki á Keflavíkurvelli inn fyrir hlið Evrópu, gerast aðilar að upplýsingakerfi Schengen-samkomulagsins um hættulegt fólk og að aukinni lögreglusamvinnu á þessu sviði. Þetta kostar nýjar framkvæmdir og aukinn rekstur.

Við þurfum að koma upp sérstakri og aðskilinni aðstöðu til að taka við fólki, sem kemur inn fyrir landamæri Evrópu á Keflavíkurvelli, einkum fólki í áætlunarflugi frá Norður-Ameríku. Þetta fólk kemur flest á skömmu tímabili snemma morguns á degi hverjum.

Við stöndum því andspænis tveimur kostum. Annars vegar missum við núverandi hagræði af norrænu vegabréfafrelsi. Hins vegar þurfum við að borga hundruð milljóna í framkvæmdir og tugi milljóna í árlegan rekstur aðildar að nýju og meira samgöngufrelsi í Evrópu.

Danir, Finnar og Norðmenn efast ekki um, að það henti þeim að fórna norræna vegabréfasamstarfinu og leggja í kostnað við að taka að sér gæzlu ytri landamæra Evrópu. Við munum eiga erfiðara með að gera upp hug okkar, því að okkur vex kostnaðurinn í augum.

Þjóðir eins og Danir eiga auðvelt með að sjá haginn af opnum landamærum til suðurs, af því að þeir eru góðir kaupsýslumenn. Við erum hins vegar lélegir kaupsýslumenn og sjáum fyrst og fremst kostnaðinn af því að hrekjast inn fyrir sameinuð landamæri Evrópu.

Við munum smám saman þurfa að taka fleiri ákvarðanir af þessu tagi. Hvenær sem gamalt samstarf Norðurlanda rekst á við nýtt samstarf Evrópu, mun norræna samstarfið verða að víkja. Við munum velja um aukna einangrun eða dýra aðild að auknu Evrópusamstarfi.

Meðan við erum enn svo einangrunarsinnuð, að við treystum okkur ekki til að taka áhættu af tækifærunum við að vera í Evrópusambandinu, getur aðild að samningum á borð við Schengen brúað bilið fram að ákvörðun og gert okkur gjaldgenga aðila í fyllingu tímans.

En þjóðarsátt er hér á landi um einangrunarstefnu, sem ríkisstjórnin fylgir eindregið. Því er hætta á, að við verðum að sinni að kúldrast utan landamæra Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV