Pólitísk búsetuskil

Greinar

Í síðustu skoðanakönnun DV kom fram, að fjórir íslenzkir stjórnmálaflokkar eru eindregnir flokkar höfuðborgarsvæðisins að fylgi til, þótt þess sjáist ekki merki í gerðum þeirra allra. Þetta eru Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, Kvennalistinn og Þjóðvaki.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði 55% fylgi á höfuðborgarsvæðinu á móti 39% fylgi á landsbyggðinni. Alþýðuflokkurinn hafði 15% fylgi á höfuðborgarsvæðinu á móti 10% fylgi á landsbyggðinni. Kvennalistinn hafði á sama hátt 6% og 2% fylgi og Þjóðvaki hafði 3% og 1% fylgi.

Aðeins einn þessara flokka tekur umtalsvert tillit til sjónarmiða höfuðborgarsvæðisins. Það er Alþýðuflokkurinn. Hinir flokkarnir, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, keppast um að þjónusta byggðastefnu af ýmsu tagi, þar á meðal misjafnan kosningarétt kjósenda.

Framsóknarflokkurinn er hinn eini, sanni landsbyggðarflokkur að fylgi til. Hann hefur 31% fylgi á landsbyggðinni og tæplega 10% fylgi á höfuðborgarsvæðinu. Í humátt á eftir kemur Alþýðubandalagið með 16% fylgi á landsbyggðinni og 12% fylgi á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt þessum tölum er eðlilegt, að Framsóknarflokkurinn sé helzti hagsmunaflokkur landsbyggðarinnar og að Sjálfstæðisflokkurinn sé helzti hagsmunaflokkur höfuðborgarsvæðisins. Í reynd eru þessir tveir flokkar hins vegar sömu megin borðsins í hagsmunagæzlunni.

Merkilegasti þáttur þessa máls er, að Sjálfstæðisflokkurinn sækir fylgi sitt til höfuðborgarsvæðisins og notar það til að gæta sérhagsmuna landsbyggðarinnar. Þetta gefst honum afar vel, enda sýna skoðanakannanir mikið og vaxandi fylgi flokksins á höfuðborgarsvæðinu.

Ein afleiðinga þessa misræmis er, að sjaldan og lítið gerist nokkuð í jöfnun atkvæðisréttar, þótt stundum sé masað mikið um hana fyrir kosningar. Þannig tregðaðist Sjálfstæðisflokkurinn í síðustu ríkisstjórn við að ýta málinu áfram, svo að nánast ekkert varð úr verki.

Af því að kjósendum á höfuðborgarsvæðinu er flestum sama um, þótt hvorki gangi né reki í þessu réttlætismáli, nær Sjálfstæðisflokkurinn þeim árangri að hala inn fylgi þeirra, sem hann vinnur gegn. Andstaðan við atkvæðamisréttið ristir því ekki djúpt hjá kjósendum.

Í framkvæmd lítur dæmið þannig út, að meirihluta Alþingis skipa landsbyggðarþingmenn, sem eru önnum kafnir við að gæta sérhagsmuna heimamanna, og minnihlutann skipa þingmenn frá höfuðborgarsvæðinu, sem leiða sérhagsmunastríðið að mestu hjá sér.

Þetta byggist auðvitað á því, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu líta á sig sem íslenzka kjósendur og ætlast ekki til sérhagsmunagæzlu af pólitískum umboðsmönnum, en kjósendur á landsbyggðinni líta á sig sem heimakjósendur og krefjast hagsmunagæzlu sinna manna.

Þannig verður sú verkaskipting á Alþingi að þingmenn höfuðborgarsvæðisins sérhæfa sig í almannahagsmunum og þingmenn landsbyggðarinnar sérhæfa sig í staðbundnum hagsmunum. Ef þessir hagsmunir rekast á, eru almannahagsmunir yfirleitt látnir víkja.

Þannig er til dæmis þrengt að stóru sjúkrahúsunum á höfuðborgarsvæðinu og lokað þar deildum á sama tíma og verið er að stækka sjúkrahús á landsbyggðinni, þótt ekki sé þar aðstaða til að sinna sjúklingum í samræmi við kröfur nútímans. Á öllum sviðum eru dæmin svona.

Þannig mun þetta verða áfram meðan kjósendur eru í raun sáttir við að stjórnmálamenn og -flokkar þjóni þröngum og staðbundnum sérhagsmunum af ýmsu tagi.

Jónas Kristjánsson

DV