Vopnaðir atvinnumenn

Greinar

Bankaránið á mánudaginn vekur athygli á nokkrum atriðum, sem einkenna íslenzk afbrot í vaxandi mæli. Ber þar einna hæst aukna aðild atvinnumanna, sem eru vel skipulagðir og fremja ekki afbrot sín undir þungum áhrifum læknalyfja, áfengis eða fíkniefna.

Reynslan sýnir, að íslenzkir rannsóknamenn eru vanbúnir að fást við glæpi af þessu tagi. Algengast er, að ræningjar finnist ekki og þurfi því ekki að svara til saka. Þannig hafa til dæmis ekki enn fundizt þeir, sem í febrúar rændu tvo benzínafgreiðslumenn á leið í banka.

Mikilvægt er, að rannsóknamenn nái sem fyrst tökum á þessari tegund glæpa til þess að draga úr fordæmisgildi þeirra. Með aukinni þjálfun, erlendri fræðslu og bættum mannskap á að vera unnt að upplýsa fleiri mál af þessu tagi og fækka afbrotum atvinnumanna.

Að ýmsu leyti eru aðstæður til rannsókna á afbrotum betri hér á landi en annars staðar. Landamæri ríkisins eru ljós og þjóðfélagið er í senn fámennt og heildstætt. Hér á landi ætti fremur en annars staðar að vera unnt að einangra undirheimana og skyggnast inn í þá.

Vopnaburður eða hótanir um vopnabeitingu eru annað atriði, sem í vaxandi mæli einkennir afbrot hér á landi. Skiptir þá litlu, hvort um raunveruleg vopn er að ræða eða ekki, því að fólkið, sem fyrir þeim verður, hefur enga aðstöðu til að ganga úr skugga um slíkt.

Aukinn vopnaburður afbrotamanna kemur raunar ekki á óvart frekar en aukin atvinnumennska þeirra. Hvort tveggja hefur í vaxandi mæli einkennt afbrot í nágrannalöndunum. Og rannsóknamenn á Norðurlöndum hafa einnig átt í mesta bazli með slík mál.

Vopnaburðurinn er alvarlegri en atvinnumennskan. Hún setur óbreytta borgara í hættu, sem atvinnumennskan ein gerir ekki. Raunar má gera því skóna, að atvinnumenn séu fólki minna hættulegir en skyndiglæpamenn, sem eru ruglaðir af notkun lyfja eða áfengis.

Bankar og aðrar stofnanir, sem hafa mikla peninga með höndum, geta aukið varúðarráðstafanir sínar langt umfram það, sem nú tíðkast hér á landi, og þannig lagt steina í götu atvinnumanna. Aukin gætni og aukin tækni í gæzlu peninga getur þannig haft mikil áhrif.

Öðru máli gegnir um vopnaburðinn. Ekki er hægt að verjast honum á sama hátt og atvinnumennskunni. Í því efni duga ekki varnir, heldur þarf að sækja inn í skúmaskot þjóðfélagsins og lýsa þau upp. Í því efni er nauðsynlegt að beina athyglinni að rótum vandans.

Íslenzka þjóðfélagið dregur því miður óhjákvæmilega dám af umhverfi sínu. Það er að verða flóknara og margbreytilegra. Gjár eru að myndast milli þjóðfélagshópa. Ekki sízt er taumlaus græðgi í vaxandi mæli höfð að leiðarljósi í öllum þrepum þjóðfélagsstigans.

Á efri þrepum eru ótal tækifæri til að þjóna græðginni innan ramma laganna. Í neðri þrepunum telja menn sig fremur þurfa að stytta sér leið út fyrir þann ramma, en hafa um leið óbeina fyrirmynd af hinum, sem greinilega þjóna græðgi sinni, þótt innan rammans sé.

Með betri innsýn í hugarheim og þjóðfélagsaðstæður vopnaðra atvinnumanna eiga rannsóknamenn að geta náð betri árangri við að upplýsa glæpi þeirra. Brýnt er að koma þeim skilaboðum á framfæri við upprennandi afbrotamenn, að þess háttar glæpir borgi sig ekki.

Hinn ljúfi tími viðskipta við vímaða kunningja lögreglunnar er að byrja að víkja fyrir tíma baráttu við alvöru glæpamenn eins og þeir tíðkast úti í hinum harða heimi.

Jónas Kristjánsson

DV