Deilan í Langholtskirkju bendir eindregið til þess, að málsaðilar séu lítt færir um að stunda mannleg samskipti með venjulegum hætti. Í daglega lífinu lendir venjulegt fólk í margs konar árekstrum, sem yfirleitt eru leystir strax. Úlfaldar eru ekki gerðir úr mýflugum.
Deilurnar í Langholtskirkju eru efnislega ómerkilegar og lítt áhugaverðar þeim, sem horfa á málið að utan. Þær hafa samt hlaðið svo utan á sig, að þjóðkirkjan er komin í hár saman við sjálfa sig út af þeim. Skilin milli deiluaðila á þeim vettvangi eru vel þekkt frá fyrri tíð.
Fyrir öðrum flokknum fara formaður Prestafélags Íslands og vígslubiskupinn í Skálholtsstifti, sem finna biskupnum yfir Íslandi flest til foráttu, þar á meðal afskiptum hans af deilunni í Langholtskirkju. Orðalagið í gagnrýni þeirra er einnig gamalkunnugt af fyrri deilumálum.
Þannig segir formaðurinn til dæmis um biskupinn: “Ég veit ekki, hvað hann er að hugsa, blessaður maðurinn.” Í þessum orðum og ýmsum fleirum kemur greinilega fram, að hluti prestastéttarinnar er algerlega andvígur biskupnum og er ekki að spara lítilsvirðingarorðin.
Þjóðkirkjan er orðin að þjóðarvandamáli. Prestar eiga í útistöðum hver við annan. Þeir eiga í útistöðum við safnaðarnefndir og starfsmenn á vegum safnaðarnefnda og ekki bara organista. Einkum þó og sér í lagi eiga þeir í útistöðum um sjálfa yfirstjórn þjóðkirkjunnar.
Hluti prestastéttarinnar getur ekki sætt sig við niðurstöðu síðasta biskupskjörs og getur ekki dulið gremju sína. Hvað eftir annað hafa fjölmiðlar neyðzt til að ritskoða orðbragð presta, þegar þeir ræða þetta hjartans mál sitt, svo að ummæli þeirra verði prenthæf.
Í framhaldi af fyrri deilum innan þjóðkirkjunnar hafa prestar verið hvattir til að gæta hófs í framgöngu sinni. Ljóst er, að ekkert mark hefur verið tekið á þessum ábendingum. Enn einu sinni er allt komið á hvolf innan þjóðkirkjunnar og í þetta sinn af litlu tilefni.
Tímabært er orðið, að ríkið hætti að bera fjárhagslega ábyrgð á sundurþykkri stofnun skapstyggra manna og gefi kirkjunni sjálfstæði. Kirkjan er ekki lengur kirkja þjóðarinnar, heldur vettvangur alls konar deilna, þar á meðal deilna um rétta trú og rétta kirkjusiði.
Þau atriði, sem starfsmenn þjóðkirkjunnr og einstakra safnaða hennar finna til að gera sér að ágreiningsefni, eru flest svo fjarlæg áhugasviðum skattgreiðenda, að eðlilegt er, að hinir síðastnefndu fari að efast um, að stofnunin eigi yfirleitt að vera á fjárlögum ríkisins.
Eðlilegt er, að söfnuðir velji sér presta og aðra starfsmenn til langs eða skamms tíma og beri á þeim fjárhagslega ábyrgð. Aðskilnaður ríkis og kirkju er að verða óhjákvæmilegur, enda er ekki hægt að segja, að trúfrelsi ríki hér á landi, þegar ríki og kirkja eru samgróin.
Með aðskilnaði fá söfnuðir það kristnihald, sem þeir sækjast eftir, og sértrúarsöfnuðir úti í bæ fá samkeppni frá lúterskri trú. Tímabært er orðið, að þjóðkirkjan fái tækifæri til að endurvekja sig til trúarlífs á slíkan hátt, áður en innviðir hennar hrynja í innra ósamkomulagi.
Með fjárhagslegri ábyrgð safnaða á starfsmönnum sínum fá kennimenn þjóðarinnar kjörið tækifæri til að afla sér umboðs, myndugleika og andlegs styrks úr grasrótinni í stað þess að hanga í innihaldsrýru umboði mánaðarlegs launaumslags úr fjármálaráðuneytinu.
Vænta má, að starfsmenn sjálfstæðrar kirkju hafi nóg að gera við lifandi safnaðarstarf og hafi þar af leiðandi ekki tíma aflögu til þrasgefins iðjuleysis.
Jónas Kristjánsson
DV