Þjóðnýtt einkavæðing

Greinar

Einkavæðing á Íslandi hefur hingað til fremur líkzt einkavinavæðingu og vekur engar vonir um, að rétt verði staðið að einkavæðingu Búnaðarbankans og Landsbankans. Frægustu dæmin um rangsnúna einkavæðingu eru Bifreiðaskoðun Íslands og Lyfjaverzlun Íslands.

Grunsamleg er kenning sumra, sem hafa hagnazt á fyrri einkavinavæðingu ríkisfyrirtækja, að bankarnir séu of litlir og þarfnist sameiningar. Þvert á móti eru bankarnir svo fáir, að milli þeirra er afar lítil samkeppni um þjónustu. Bankarnir eru skólabókardæmi um fáokun.

Augljóst er, að bankarnir eru svo stórar stofnanir, að afar fáir aðilar hafa ráð á að kaupa umtalsverðan hlut í þeim. Líklegast verða stórfyrirtæki og samtök að leggja saman í tilboðspakka. Það þýðir, að tilboðin verða ekki mörg, svo að eðlileg samkeppni tilboða næst ekki.

Útboð á hlutafé mun leiða til of lágra tilboða, þannig að bankinn eða bankarnir munu seljast á lægra verði en eðlilegt má telja. Markaðurinn fyrir banka er einfaldlega of þröngur hér innanlands til þess að hægt sé að nýta viðurkennda kosti einkavæðingarstefnunnar.

Hamla má á móti þessari fáokun með því að selja bankana á alþjóðlegum markaði. Ef útboðið er þannig úr garði gert, að útlendir aðilar megi bjóða og sjái sér fært að uppfylla skilmála, er hugsanlegt, að tilboðin verði svo mörg, að sanngjarnt verð fáist fyrir bankana.

Margir verða hins vegar ekki sáttir við, að bankarnir lendi í eigu erlendra aðila, þannig að alls er óvíst, að pólitísk samstaða náist um þá lausn, sem gefur meira í aðra hönd. Einkavinavæðingin er umdeild, en þó ekki eins umdeild og útlendingavæðing mundi verða.

Til er önnur leið úr þessum vanda. Hana hafa farið ríki, sem að mörgu leyti líkjast Íslandi í miklum ríkisumsvifum, en hafa náð árangri í að steypa sér út í einkavæðingu. Þetta eru nokkur ríki í Austur-Evrópu, sem eru um það bil að verða vestrænni en við á þessu sviði.

Þessi fáu ríki forðuðust rússnesku einkavinavæðinguna, sem felst í, að stórforstjórar ríkisfyrirtækja og sérfræðingar kommúnistaflokksins í fjárhagslegum reddingum og millifærslum hafa eignazt mikinn hluta efnahagslífs Rússlands fyrir lítinn sem engan pening.

Aðferðin felst einfaldlega í, að kjósendum eru send hlutabréfin í pósti. Þeir eru hinir raunverulegu eigendur þess, sem ríkið er skráð fyrir. Með því að færa eignarhaldið frá ríkinu yfir til kjósendanna er verið að einkavæða án þess að þurfa að meta, hvert verðgildi bréfanna sé.

Með þessu vinnst margt. Í fyrsta lagi raskar þessi aðferð ekki fjármálum ríkisins, sem ella mundi nota andvirði bankanna til að búa til þarfir, sem ekki verður hægt að standa undir, þegar andvirðið er upp urið. Skyndileg og tímabundin aukning ríkistekna hefur skaðleg áhrif.

Í öðru lagi næst rekstrarbati einkavæðingar. Sem hlutafélög án ríkisábyrgðar verða bankarnir aðnjótandi flests þess, sem gerir einkarekstur hagkvæmari en ríkisrekstur. Hagnaður þjóðarinnar felst einmitt í varanlegum rekstrarbata, en ekki í tímabundnum tekjuauka ríkis.

Í þriðja lagi fá kjósendur í hendur pappíra, sem þeir eiga og geta ráðskazt með. Margir þeirra munu telja sig neydda til að fara að kynna sér þessa hlutabréfaeign og fara að hugsa um fjármálamarkaðinn. Það mun leiða til aukins kapítalisma í hugarfari þjóðarinnar.

Við erum farin að dragast aftur úr Austur-Evrópu og höfum því gott tækifæri til að læra af reynslunni, sem þar er bezt af einkavæðingu opinberra fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV