Róttæk vörn í Dagsbrún

Greinar

Andstæðingum skrifstofumannanna í stjórn Dagsbrúnar hefur tekizt að bjóða fram lista gegn lista stjórnarinnar í kosningum, sem verða 19. og 20. janúar. Þetta er töluvert afrek, því að kosningareglur Dagsbrúnar eru sérstaklega sniðnar til að hamla gegn nýjum framboðum.

Til þess að bjóða fram í Dagsbrún nægir ekki að bjóða fram fólk til setu í fámennri stjórn, heldur þarf að bjóða fram í hundrað sæti trúnaðarmanna og tuttugu sæti varamanna þeirra. Það er eins erfitt og að bjóða fram þúsund manna framboðslista í almennum kosningum.

Við slíkar aðstæður er ekki hægt að bjóða fram lista gegn stjórninni nema útbreidd ónáægja sé með störf hennar. Hitt kemur svo ekki í ljós fyrr en í kosningunum, hvort óánægjan er nógu mikil til að velta stjórninni úr sessi. En efni standa til tvísýnna kosninga.

Núverandi stjórn Dagsbrúnar hefur reynt að leggja fleiri steina í götu mótframboðsins. Greinilegt er, að skipulögð hefur verið persónuleg rógsherferð gegn oddamönnum mótframboðsins. Stjórn Dagsbrúnar telur sig ekki koma þar nærri, en herferðin er samt staðreynd.

Þá hefur núverandi stjórn Dagsbrúnar beitt hártogunum til að fresta því, að mótframboðið fengi aðgang að félagaskránni. Það fékkst ekki fyrr en tveimur vikum fyrir kosningar og vantaði þá í skrána símanúmer, sem mótframoðið telur vera í félagaskrá stjórnarinnar.

Einnig stóð stjórnin ekki við samkomulag um, að mótframboðið fengi aðgang að sameiginlegu blaði framboðslistanna. Bar hún því við, að hugmyndir væru uppi um að hafa blöðin tvo, eitt fyrir hvort framboð. Þetta kom ekki í ljós, fyrr en við lok skilafrests á greinum.

Ekki er ljóst, hvernig stjórnin hefur hugsað sér að fjármagna leigu á húsnæði og símum úti í bæ, sem eru í nafni Dagsbrúnar og ætlað til kosningabaráttu lista stjórnarinnar. Efnt var til þessa kostnaðar í nafni Dagsbrúnar, eins og ætlað væri að láta félagið borga.

Allt eru þetta tilraunir til að draga úr líkum á árangri mótframboðsins, sem eru umfram það, er tíðkast í öðrum félögum með strangari siðareglur stjórnar og eru umfram þá aðstöðu, sem felst í að hafa betri aðgang en hinir að starfsliði og starfsaðstöðu á skrifstofum félagsins.

Hinar einstöku aðgerðir stjórnarinnar gegn mótframboðinu kunna sumar hverjar að eiga sér eðlilegar skýringar. En málin eru samanlagt svo mörg, að erfitt er að verjast þeirri hugsun, að stjórnin fari meira eða minna offari í því, sem venjulega eru kölluð bolabrögð.

Ljóst má vera, að stjórn Dagsbrúnar tekur mótframboðið alvarlega og seilist róttækt til aðgerða við að hindra árangur þess. Enda eru miklir hagsmunir í húfi á skrifstofunni. Það er stórbissness að reka verkalýðsfélag og ýmssar stofnanir og sjóði, sem eru á vegum þeirra.

Dagsbrún hefur eins og önnur stéttarfélög og samtök þeirra mátt sæta nokkurri gagnrýni fyrir lélegan árangur á undanförnum árum. Hinn sérstæði stíll formannsins, sem nú er raunar ekki lengur í framboði, hefur ekki borið neinn árangur umfram vinnubrögð annarra.

Í samanburði við aðra hefur staða láglaunafólks haldið áfram að versna að undanförnu. Þeir aðilar, sem tekið hafa að sér að gæta hagsmuna þess fólks, og er Dagsbrún þar engan veginn ein um hituna, hafa ekki fundið eða ekki viljað finna leið til að laga stöðuna.

En það segir nokkra sögu, að Dagsbrún er fyrsta stéttarfélag láglaunafólks, þar sem gerð er markviss tilraun til að velta gamalli valdastétt félagsins úr sessi.

Jónas Kristjánsson

DV