Ferðaþjónustan hefur ráðið almannaatengla til áróðurs í fjölmiðlum. Daglega les ég nokkrar hryllingssögur þaðan. Ferðamenn séu að falla frá pöntunum, einkum þeir sem mest eyðslufé hafa. Ferðaþjónustan muni hrynja, ef hún þurfi að borga sama vask og aðrir. Þetta er auðvitað útblásið, þótt þjóðfélagið þurfi raunar á minni aukningu ferðamanna að halda. Innviðir eru í ólagi. Einkum gangstígar og pallar við fjölsótta staði, svo og salerni og önnur hreinlætisaðstaða. Einnig frágangur á þjóðvegum og brúm. Í þessu þarf að drífa, áður en ferðamönnum fjölgar enn meira. Ísland hefur alltaf verið viðurkennt sem dýrt land og ferðamenn munu áfram koma.