Opin gögn um borgina

Punktar

Reykjavík hefur opnað bókhald sitt fyrir almenningi, sett það á veraldarvefinn. Þetta eru ósíuð, hrá bókhaldsgögn A-hluta borgarsjóðs. Í kjölfar aðildar pírata að meirihluta borgarstjórnar, er opin og gegnsæ stjórnsýsla orðin borgarstefna. Að þessu sinni eru þetta árin 2014, 2015 og 2016. Vonandi fylgir síðan B-hluti borgarstofnana. Öðrum sveitarfélögum, ríkinu og einkavinavæddum fyrirtækjum ber að feta í fótspor Reykjavíkur. Gegnsæi er hornsteinn lýðræðis. Til þess þarf tækni og pólitískan vilja. Með gegnsæi niður í hrágögn um fjármál og fundi á þjóðin að geta fetað sig úr myrkrinu að þekkingu um það, sem hún er að kjósa.