Grisjun forsetaefna

Greinar

Hreyfing er að komast á framboð forsetaefna um þessar mundir. Stuðningsmenn að minnsta kosti eins þeirra, sem til greina eru talin koma, eru farnir að hittast á reglubundnum fundum. Nokkur önnur forsetaefni eru komin á fremsta hlunn með að ákveða, hvort þeir leggi í hann.

Þetta gerist með óvenjulega góðum fyrirvara að þessu sinni. Næstum hálft ár er enn til kosninga. Í rauninni liggur ekkert enn á því, að forsetaefnin ákveði sig. En stuðningsmenn eru oft hræddir um að missa flugið, ef bíða þarf eftir formlegri ákvörðun um framboð.

Af skoðanakönnun DV, sem birt var í gær, má ráða, að viðhorf fólks til hugsanlegra forsetaefna hafi lítið breytzt. Tilnefnt var að mestu sama fólkið og tilnefnt hafði verið í skoðanakönnunum blaðsins í október og desember og að mestu í svipuðum hlutföllum.

Af þeim mörgu, sem nefndir hafa verið í fjölmiðlum að undanförnu, eru aðeins sjö, sem náðu frambærilegum árangri í könnuninni. Þrjú efstu sætin eru raunar eins skipuð og áður, með Pálma Matthíasson efstan, Guðrúnu Agnarsdóttur aðra og Davíð Oddsson hinn þriðja.

Í þessum sjö manna hópi eru einnig Ólafur Ragnar Grímsson, Ellert B. Schram, Guðrún Pétursdóttir og Steingrímur Hermannsson. Telja verður, að annað fólk, sem nefnt hefur verið í fjölmiðlum, en ekki komizt í þennan sjö manna hóp, muni ekki láta verða af framboði.

Hitt er aftur á móti hugsanlegt, að enn hafi ekki verið tilnefndir allir þeir, sem verða í framboði í forsetakosningunum. Það gerðist einu sinni, að nafn Kristjáns Eldjárns kom óvænt upp fremur seint í aðdraganda kosningaundirbúnings og sló eigi að síður í gegn.

Ennfremur er líklegt, að töluvert grisjist úr þeim sjö manna hópi, sem enn stendur eftir af öllum þeim, sem tilnefndir hafa verið. Sumir þessara sjö hafa raunar ekki svarað spurningum á þann veg, að ætla megi, að þeir hafi umtalsverðan áhuga á embættinu að þessu sinni.

Ekki er fráleitt að ætla, að frekari athuganir á stuðningi, bæði óformlegar athuganir og formlegar skoðanakannanir, leiði til þess, að um það bil helmingur þessara sjö forsetaefna telji líkur á árangri ekki nægja til að það svari fyrirhöfn að ganga til hins erfiða leiks.

Ef þrír standa eftir af hópnum og einn bætist við, þegar til kastanna kemur, er það sama tala frambjóðenda og var síðast, þegar kosið var í alvöru. Mörgum fannst nóg um fjöldann þá. Síðan hefur ekkert gerzt, sem breytir þeirri skoðun, að bezt sé, að þeir séu sem fæstir.

Því fleiri sem frambjóðendur eru, þeim mun meira dreifast atkvæðin og þeim mun færri atkvæði eru beinlínis að baki þess, sem verður fyrir valinu sem forseti. Reynslan sýnir þó, að slíkt skerðir hvorki vinsældir hans né skerðir getu hans til að njóta sín í embætti.

Þannig er það betra, en samt ekki meginatriði málsins, að frambjóðendur verði sem fæstir. Engin formúla er fyrir því, að forseti sé ekki jafngildur í vali, þótt hann hafi ekki fengið nema 30% atkvæða, 20% eða þaðan af minna. Það er nóg að vera fremstur meðal jafningja.

Auk alvöruframboða má búast við tilraunum til sérvizkuframboða. Slík framboð eru ágæt með öðrum, því að þau staðfesta þá sjálfsmynd Íslendinga, að þeir séu nánast konungbornir og hæfir til að axla hvaða ábyrgð sem er. Sérvitringar eru nauðsynlegir í bland.

Engin hætta er á öðru en að þjóðin muni finna sér hæfan forseta í sumar. Hún mun fara sínu fram og ekki fara að neinum fyrirmælum. Þetta er hennar val.

Jónas Kristjánsson

DV