Ósamkeppnishæft Ísland

Greinar

Engin haldbær skýring hefur fengizt á launamun starfsfólks í fiskvinnslu á Íslandi og í Danmörku. Íslendingar halda áfram að streyma til Danmerkur til að lifa eðlilegu lífi af venjulegum daglaunum í fiskvinnslu. Þar eru launin tvöfalt hærri en þau eru hér á landi.

Ekki stafar munurinn af því, að Íslendingar séu svo latir eða þannig gerðir af náttúrunnar hendi, að þeir geti ekki unnið í verksmiðjum. Þeir hafa getið sér gott orð í fiskvinnslu í Danmörku og vakið athygli ráðningarstjóra á, að gott sé að hafa Íslendinga við störf.

Þegar sama fólkið fær svona misjöfn laun eftir því, í hvaða landi það starfar, hlýtur orsakanna að vera leita annars staðar en hjá starfsfólkinu. Ef afköst í íslenzkri fiskvinnslu eru eins lítil og látið er í veðri vaka, hlýtur orsökin að felast í misheppnaðri stjórn á vinnunni.

Lauslegar athuganir benda ekki til, að dönsk fiskvinnsla geti borgað svona há laun af því að hún fái fiskinn inn í hús á lægra verði en íslenzk fiskvinnsla fær hann. Þvert á móti er ástæða til að ætla, að danska vinnslan verði að greiða heldur hærra verð.

Ýmsar ytri aðstæður vinnslunnar eru sennilega betri í Danmörku en hér. Frægt varð til dæmis fyrir nokkrum árum, þegar kom í ljós, að rafmagn var dýrara í vatnsorkulandinu Íslandi heldur en í Danmörku, sem verður að kaupa mikið af sinni raforku frá útlöndum.

Raunar er verðugt verkefni fyrir samtök atvinnulífsins að láta mæla þennan mismun á ýmsum sviðum. Slíkt getur aukið þrýsting á viðkomandi stjórnvöld og þjónustuaðila að bæta rekstur sinn til þess að ná samanburðarhæfni gagnvart hliðstæðum aðilum erlendis.

Meðan þetta hefur ekki verið rannsakað á fullnægjandi hátt verður haft fyrir satt, að samanlögð áhrif slíkra ytri aðstæðna fiskvinnslunnar í landinu, eins og raunar annars atvinnulífs, séu ekki svo mikil, að þau geti skýrt tvöfalt hærri laun í Danmörku en hér á landi.

Ekki hefur heldur verið sýnt fram á, að skattar fyrirtækja séu hærri hér á landi en í Danmörku. Því er raunar haldið fram, að samanlagðir skattar á atvinnurekstur vegi léttar hér á landi, alveg eins og skattar á almenning. Dönsk skattheimta sé nokkru meiri en íslenzk.

Þegar frá eru taldir þeir áhrifavaldar, sem hér hafa verið raktir, hlýtur athyglin að beinast að stjórn og skipulagi fiskvinnslu. Eðlilegt er að telja íslenzk fiskvinnslufyrirtæki vera mun lakar rekin en dönsk og því ekki geta keppt við hin dönsku í launakjörum starfsfólks.

Ef vandinn er greindur og staðsettur, er unnt að ráðast til atlögu gegn hinum gölluðu þáttum. Þá er til dæmis hægt að bæta skipulag fiskvinnslufyrirtækja eða breyta fjárfestingar- og skuldsetningarstefnu þeirra eða skipta út aðferðum við yfirstjórn og verkstjórn.

Ekki þarf að útskýra, hversu mikilvægt það er fyrir þjóðfélagið, að skýringar finnist á lélegum kjörum í fiskvinnslu og raunar öðrum atvinnugreinum. Eina leiðin fyrir Ísland til að vera samkeppnishæft við útlönd er að hafa svipaða framleiðni vinnu og fjármagns og þau.

Vaxandi landflótti sýnir berlega, að töluvert skortir á, að Ísland sé samkeppnishæft við útlönd. Fólk greinir hins vegar á um, hvernig á þessu standi. Við þurfum að komast af þessu frumstigi ágreinings um orsakir og komast í aðstöðu til að leysa skilgreind verkefni.

Atvinnuvegir og þjóðmálaöfl þurfa að taka saman höndum við að finna aðgerðir til að gera Ísland samkeppnishæft og draga þannig úr líkum á landflótta.

Jónas Kristjánsson

DV