Uggvænlegar framfarir

Greinar

Vetrarræktun á tómötum og gúrkum er að verða að veruleika. Þessar afurðir verða að þessu sinni tveimur mánuðum fyrr á ferðinni en áður. Við venjulegar aðstæður ætti fólk að fagna þessu sem framförum í efnahagslífinu, en málið er því miður flóknara en svo.

Ef lengist tímabil framboðs á dýru grænmeti frá Íslandi, þá styttist fljótlega sá tími, þegar almenningur hefur aðgang að ódýru grænmeti frá útlöndum. Haustak landbúnaðarins á þjóðinni er slíkt, að hún verður að greiða þessa tilraunastarfsemi fullu verði.

Við búum við þær sérkennilegu kringumstæður, að grænmeti lækkar í verði á haustin, þegar vetur gengur í garð hér á landi, og hækkar aftur á vorin, þegar gróðrartími hefst að nýju. Þetta stafar af reglum um forgang íslenzkra afurða á þeim tíma, þegar þær eru fáanlegar.

Við erum hins vegar enn svo heppin, að ávextir eru ekki ræktaðir í landinu. Ef þeir fengjust úr gróðurhúsum á sumrin, mundum við ekki njóta ódýrra ávaxta frá útlöndum á þeim tíma. Við verðum bara að vona, að tækniþróun íslenzkra gróðurhúsa nái aldrei svo langt.

Þessar aðstæður valda því, að ávextir eru tiltölulega ódýrir hér á landi, en grænmeti hins vegar afar dýrt, að minnsta kosti nokkurn hluta ársins. Fólk áttar sig ekki á þessu, fyrr en það kemur í matvöruverzlanir í útlöndum og ber verðið saman við það, sem það þekkir heima.

Ástandið þýðir í rauninni, að árangur í tilraunum til lengri ræktunartíma í gróðurhúsum er hrein og bein útgerð á vasa neytenda. Þessar tilraunir hafa ekkert efnahagslegt gildi fyrir þjóðina, af því að það vantar alveg fjárhagslegan mælikvarða á markaðshæfni vörunnar.

Raunverulegur mælikvarði á gildi vetrartómata og vetrargúrkna felst í verðsamkeppni við innflutta vöru. Landbúnaðarkerfið mun hins vegar sjá um, að hindra slíka samkeppni, svo að tilraunavaran seljist, alveg eins og hún sér um, að önnur garðyrkjuvara seljist.

Þetta gerist ekki í vetfangi. Um þessar mundir er hægt að fá ódýrar gúrkur frá útlöndum, þótt dýrar vetrargúrkur séu líka fáanlegar. En reynslan sýnir, að kerfið kemur í humátt á eftir tækniframförunum og sér um, að þær verði á kostnað neytenda í landinu.

Stundum er haldið fram, að íslenzkt grænmeti megi vera dýrara en innflutt, af því að það sé betri vara. Út frá þessari röksemdafærslu ætti að vera unnt að hafa hvort tveggja til sölu á sama tíma, svo að neytendur geti valið milli verðs og gæða samkvæmt markaðslögmálum.

Kenningin um gæði íslenzks grænmetis er hins vegar sett fram af annarri ástæðu, til að halda uppi vörnum fyrir innflutningsbanni. Kerfið vill nefnilega ákveða, hvað sé neytendum fyrir beztu, og telur þeim vera fyrir beztu að kaupa grænmeti frá skjólstæðingum kerfisins.

Það væri ósköp indælt, ef hægt væri að fagna tækniframförum í garðyrkju af heilum hug. Það er hins vegar tæpast hægt, af því að við vitum, að markaðslögmál verða ekki látin gilda sem mælikvarði á tækniframfarirnar, heldur munu ráða einokunarlögmál kerfisins.

Dýra einokunarkerfið leiðir til óeðlilega lítillar notkunar grænmetis hér á landi. Sem dæmi má nefna, að börn og unglingar borða hér aðeins 37 grömm á dag af grænmeti að meðaltali, en æskileg neyzla á grænmeti er talin vera 150 grömm í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Einokunarkerfið hefur leitt til minni grænmetisneyzlu hér á landi en í nokkru öðru landi í Evrópu og skaðar þannig almennt heilsufar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV