Kæruleysi í fíkniefnastríði

Greinar

Handtökur fíkniefnaneytenda geta verið gagnlegar, ef þær leiða til, að lögreglan getur fetað sig upp keðjuna frá sölumönnum til skipuleggjenda framboðs fíkniefna. Eitt út af fyrir sig er gagnslaust að taka neytendur með nokkur grömm af hinum veikari tegundum fíkniefna.

Undanfarnar vikur hefur lögreglan gert harða hríð að fíkniefnaneytendum. Ekki hefur enn komið í ljós, hvort yfirheyrslur hafa leitt í ljós upplýsingar um, hverjir séu sölumenn og hvaðan þeir fái fíkniefni. En væntanlega safnast slíkar upplýsingar í sarpinn.

Athyglisvert er, að aukin árvekni löggæzlunnar kemur með nýju fjárhagsári. Væntanlega sjá viðkomandi yfirmenn um, að haldið verði allt árið uppi leit að sölumönnum og skipuleggjendum fíkniefna, en aðgerðirnar fjari ekki út á hausti, af því að fé sé upp urið.

Tvískinnungs gætir í baráttu stjórnvalda gegn glæpamönnum á þessu sviði. Fögur orð og efndir fara ekki saman frekar en fyrri daginn í þjóðmálunum. Fjármagn til baráttunnar hefur farið minnkandi á síðustu árum og stór göt eru komin á eftirlit með innflutningi.

Niðurskurður tollgæzlu á Keflavíkurflugvelli hefur leitt til, að þar var til skamms tíma minna tekið af fíkniefnum en hafði verið gert fyrr á árum. Síðustu fréttir geta þó bent til, að þetta ástand kunni að vera að lagast aftur, og verður grannt fylgzt með árangrinum.

Afar óheppilegt er, að lögreglan skuli svo verðlauna fíkniefna-burðardýr, sem tekin eru í tolli, með því að senda þau til útlanda án nokkurra eftirmála annarra en þeirra að senda bréf um málið til heimalands burðardýrsins. Með þessu eru glæpamönnum send röng skilaboð.

Þá kom í ljós í fréttum DV í gær, að tollpóststofan hefur aðeins peninga til að leita að fíkniefnum á daginn, þótt tollpóstur berist þangað allan sólarhringinn. Þarna er greinilegt gat í kerfinu, því að fróðir menn telja víst, að mikið sé um, að fíkniefni séu send í pósti.

Flestir eru sammála um, að framboð fíkniefna sé mikið hér á landi og verð þeirra ekki tiltakanlega hátt, þrátt fyrir þær góðu aðstæður, að Ísland er eyja úti í reginhafi. Barátta gegn innflutningi fíkniefna ætti að vera tiltölulega auðveld hér, en nær samt litlum árangri.

Skylt þessu vandamáli er tvískinnungur stjórnvalda gagnvart ólöglegri framleiðslu áfengis til dreifingar meðal barna og unglinga. Illræmdasta dæmið um það er, að sundrað var hópi lögreglumanna í Breiðholti, sem höfðu náð miklum árangri við að handsama bruggara.

Aukinn áhugi almennings í vetur á framgangi málsins verður vonandi til að ýta við ríkisstjórn og embættismönnum. Stjórnvöldum ber að samræma fíkniefnaleit og útvega fjármagn til að unnt sé að halda henni uppi. Þau hafa sofið á verðinum, þrátt fyrir fögur orð.

Fleiri aðilar þurfa að koma til skjalanna. Alþingi þarf að breyta lögum á þann hátt, að hert séu viðurlög við skipulagi og sölu ólöglegra fíkniefna, þar á meðal áfengis. Ennfremur ber dómstólum að nýta sér svigrúm í lögum, þegar dómar eru kveðnir upp í slíkum málum.

Auðvitað verður líka að reyna að koma skilaboðum til neytenda um hættur fíkniefna. Það er ekki viðaminna mál að reyna að minnka eftirspurnina en að minnka framboðið. Hingað til hefur fræðsla verið lítil og rangt hugsuð, svo að hún hefur ekki náð tilætluðum árangri.

Fréttir og umræða í þjóðfélaginu hafa verið á þann veg á síðustu vikum, að ástæða er til að vona, að hreyfing sé loksins að komast á baráttuna gegn fíkniefnum.

Jónas Kristjánsson

DV