Kurteisin nær skammt

Greinar

Hinar mildu aðferðir utanríkisráðherra duga ekki í samskiptum við Norðmenn um ýmsa fiskveiðihagsmuni. Þær hafa ekki skilað neinum árangri umfram hinar hörðu aðferðir fyrrverandi utanríkisráðherra. Þær virðast fremur hafa magnað óbilgirni viðsemjenda okkar.

Við utanríkisráðherraskiptin í vor lagði hinn nýi ráðherra áherzlu á, að hann hefði annan stíl en fyrirrennarinn. Halldór Ásgrímsson sagðist mundu beita góðum kynnum sínum af ráðamönnum í Noregi til að leysa málin í friði eins og góðra granna væri siður.

Við venjulegar aðstæður kann að vera farsælt að beita fremur kurteisi en hávaða. Ágreiningur okkar við Norðmenn um fiskveiðihagsmuni telst hins vegar ekki til venjulegra aðstæðna. Yfirgangur og þvergirðingur Norðmanna á þessu sviði er einstæður í sinni röð.

Taumlaus frekja Norðmanna ætti að vera okkur kunn af deilunum um Jan Mayen, þar sem þeir náðu áttatíu prósent árangri. Þeir eru að leika sama leikinn nú, ekki aðeins gagnvart Íslandi, heldur einnig öðrum hagsmunaaðilum, svo sem Rússlandi og Evrópusambandinu.

Norðmenn sitja yfir hlut okkar á nokkrum sviðum í senn, í Smugunni, á Svalbarðasvæðinu og í Síldarsmugunni. Fiskveiðihagsmunir okkar eru líka í uppnámi á öðrum sviðum, djúpkarfamiðum út af Reykjaneshrygg og rækjumiðum á Dhornbanka og Flæmska hattinum.

Á Svalbarðasvæðinu hafa Norðmenn hreinlega tekið sér einhliða forræði, sem ekki á sér stoð í fjölþjóðasamningi um svæðið. Rússland og Evrópusambandið hafa mótmælt yfirganginum, en svo virðist sem íslenzk stjórnvöld hafi meira eða minna gefið eftir í málinu.

Mikilvægt er, að utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra hætti að fá glýju í augun, þegar þeir sjá erlenda viðsemjendur sína. Eftir níu mánaða brosmildi og notalegheit er kominn tími til að berja í borðið og byrja til dæmis á að draga Norðmenn fyrir dómstólinn í Haag.

Ennfremur þarf nú að leggja mikla áherzlu á að einangra Norðmenn með bandalögum við aðra hagsmunaaðila, sem eru gáttaðir á norskum yfirgangi. Við eigum meðal annars að hafa samráð við Evrópusambandið, því að það hefur að sumu leyti svipaða hagsmuni og við.

Um leið getum við hugleitt, hversu betur við værum á vegi stödd í milliríkjadeilum af þessu tagi, ef við værum nú að hoppa inn í Evrópusambandið á sama tíma og Norðmenn hafa hafnað aðild. Það eru stórfelld sagnfræðileg mistök okkar að missa af Evrópuhraðlestinni.

Hinn nýfengni aumingjaskapur í utanríkisstefnu okkar kemur greinilega fram í tregðu utanríkisráðuneytis okkar við að kæra Norðmenn fyrir dómstóli Evrópska efnahagssvæðisins fyrir að neita íslenzkum skipum um aðstöðu í norskum höfnum í neyðartilvikum.

Ekki fer á milli mála, að mannfjandsamlegar aðgerðir Norðmanna á þessu sviði eru brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins. Okkur veitir ekki af að auglýsa málið og velta þeim sem allra mest upp úr mistökunum til að veikja þá í öðrum samskiptum við okkur.

Níu mánaða reynslutími sýnir, að kurteisisstefna utanríkisráðherra er að bíða skipbrot. Hún hefur magnað óbilgirni viðsemjenda okkar. Og svo er nú komið, að við erum farin að sjá eftir fyrrverandi utanríkisráðherra, sem lét Norðmenn þó vita, hvar Davíð keypti ölið.

Ef svo fer sem horfir, munu margir fara að telja, að utanríkisráðherra sé, þrátt fyrir alvörugefinn svip, ekki nógu hæfur til að sinna erfiðustu þáttum starfsins.

Jónas Kristjánsson

DV