Kvótinn verði boðinn upp

Greinar

Ef rétturinn til veiða á öllum nytjafiskum við Ísland væri seldur á sama verði og menn kaupa og selja þennan rétt á kvótamörkuðum, mundi heildarverð auðlindarinnar nema 160 milljörðum króna samkvæmt sundurliðuðum reikningi á fjórtán tegundum í DV í fyrradag.

Hafa verður í huga, að ekki er víst, að gangverð allra fiskveiðiréttinda yrði í raun hið sama og gangverð jaðarréttindanna, sem nú ganga kaupum og sölum á kvótamarkaði. Stundum kaupa menn dýrar en ella, af því að þeir eru að laga kvótaeignina að búnaði og aðstæðum.

Á hinn bóginn kann líka að vera, að söluverð á kvótamarkaði endurspegli ekki fullt verðgildi kvótanna vegna óvissunnar um, hver eigi kvótana í raun. Sú skoðun er útbreidd, að seljendur kvótanna eigi ekki auðlindina og að kaupendur séu því ekki lausir allra eftirmála.

Samkvæmt skoðanakönnun vilja tveir þriðju hlutar þjóðarinnar, að tekið verði upp veiðileyfagjald, væntanlega á þeim forsendum, að ríkið eigi kvótann fyrir hönd þjóðarinnar allrar, en ekki þeir einir, sem af sagnfræðilegum ástæðum fengu ókeypis úthlutun á sínum tíma.

Það flækir málið, að margir þeir, sem upprunalega fengu kvótann frítt, hafa nú selt hann öðrum, sem væntanlega yrðu að tvíborga hann að einhverju leyti, ef komið yrði upp veiðileyfagjaldi. Réttarstaða þessara aðila hlýtur að vera atriði, sem taka þarf til skoðunar.

Ef réttur til veiða á öllum nytjafiskum við Ísland væri leigður, en ekki seldur, og á sama verði og menn kaupa og selja á kvótamörkuðum þennan árlega notkunarrétt, mundi árlegt leiguverð auðlindarinnar nema 28 milljörðum samkvæmt áðurnefndum reikningi í DV.

Þetta eru 17-18% söluverðsins, sem virðist nærri lagi sem hlutfallstala, þótt krónutalan sjálf virðist nokkuð há. Hún er auðvitað háð sömu fyrirvörum, nema að því leyti, að réttaróvissan um eignarhald kvóta á leigumarkaði er nánast engin vegna hins skamma leigutíma.

Tölur sem þessar skipta máli í ljósi þess, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar og flestir hagfræðingar telja, að taka beri upp veiðileyfagjald. Þjóðin telur þetta væntanlega vera sanngirnismál og hagfræðingarnir telja reikningslega rétt, að greitt sé afnotagjald.

Ef veiðileyfagjaldið verður eins konar skattur, er hægt að hafa upphæðina einhverja aðra en þá, sem kemur fram í niðurstöðum útreikninga af þessu tagi. Þá hefur bætzt við enn ein millifærslan í þjóðfélaginu, sem felur í sér aukið skömmtunarvald stjórnmálamanna.

Eðlilegast er að framkvæma veiðileyfagjald með uppboði á öllum kvóta til eins árs í senn. Þar með fengi markaðurinn að ákveða, hvert sé rétt verðgildi auðlindarinnar og afnotanna af henni. Markaðslögmálin segja slíkt vera réttlátustu og hagkvæmustu leiðina.

Betra er að leyfa markaðinum að ákveða tölurnar en að láta hagfræðilega útreikninga eða pólitíska málamiðlun gera það, alveg eins og markaðurinn fær að ákveða tölurnar, sem nú gilda við sölu og leigu á kvóta. Tölurnar í DV eru ekkert annað en tilraun til að spá í markaðinn.

Síðan er það auðvitað allt annað og stórpólitískt mál, hvað eigi að gera við tekjurnar, sem komi úr veiðileyfagjaldinu. Á að nota þær til að lækka skatta og þá hvaða skatta? Á að nota þær til að stækka ríkisbáknið. Á að senda landsmönnum öllum árlega ávísun í pósti?

Um langan aldur hefur verið lagt til í þessu blaði, að fiskveiðikvótinn verði leigður á frjálsu uppboði og að tekjurnar verði ekki notaðar til að stækka ríkisbáknið.

Jónas Kristjánsson

DV