Major klúðraði málinu

Greinar

Upphafsins að hruni hins torsótta friðarferils á Norður-Írlandi er að leita hjá John Major, forsætisráðherra Bretlands. Hann hafnaði 30. janúar niðurstöðu alþjóðlegrar nefndar, sem 24. janúar síðastliðinn gaf út skýrslu um, hvernig mætti stíga næsta skref í friðarátt.

Hin svonefnda Mitchell-nefnd hafði verið skipuð af málsaðilum deilunnar til að koma friðarferlinum úr sjálfheldu, sem hann var kominn í eftir nokkuð góðan árangur í upphafi viðræðna ríkisstjórna Bretlands og Írlands. John Major átti sjálfur þátt í að skipa nefndina.

Alþjóðlega Mitchell-nefndin lagði til, að hnúturinn yrði leystur með því að vinna tvö verk samhliða og samtímis. Afvopnun skæruliða færi fram í áföngum, um leið og viðræður héldu áfram um framtíð Norður-Írlands. Þetta álit kom fram í skýrslunni frá 24. janúar.

Með því að fara eftir niðurstöðu nefndarinnar gat John Major orðið eins konar höfundur að endanlegri afgreiðslu Írlandsdeilunnar. Í staðinn kom hann með tillögu um kosningar á Norður-Írlandi, sem mundu festa spennuna í sessi og framlengja pattstöðuna.

Málið hrökk auðvitað í harðan hnút við þetta hliðarskref Majors. Hann var harðlega fordæmdur af viðsemjendum sínum Írlandsmegin við samningaborðið og gagnrýndur af öðrum ríkisstjórnum. Allt fór í bál og brand. Virðist nú sem óöld sé að hefjast á nýjan leik.

Ástæðan fyrir skyndilegu og óvæntu hliðarskrefi Majors er slæm staða hans í brezka þinginu og hörmulegar tölur í skoðanakönnunum. Í hverjum aukakosningunum á fætur öðrum saxast á nauman meirihluta hans í neðri deild þingsins, sem skiptir nú örfáum atkvæðum.

Til þess að koma í veg fyrir missi meirihluta og nýjar kosningar í Bretlandi, sem Major vill fresta sem allra lengst, þarf hann að fá stuðning þingmanna sambandssinna frá Norður-Írlandi. Hann er orðinn gísl þeirra, af því að hann er skammtímamaður að eðlisfari.

Við þetta bætist, að hann telur aukna hörku og óbilgirni í meðferð mála Norður-Írlands munu færa sér aukið fylgi brezkra þjóðernissinna, þegar kosningar verða óumflýjanlegar. Þannig selur hann friðinn fyrir persónuleg og flokkspólitísk skammtímasjónarmið sín.

Allt er þetta í undirmáls- og skammtímastíl Majors, sem stingur mjög í stúf við fyrirrennarann, Margaret Thatcher. Hann hefur alltaf verið lítill karl, sem hefur haft slæm áhrif á gang mála í Evrópu. Til dæmis á hann mikinn þátt í klúðri Vesturlanda í Bosníu.

Major var leiðandi ríkisleiðtogi þeirrar evrópsku stefnu að fara fram með japli, jamli og fuðri í málum arfaríkja Júgóslavíu með þeim hryllilega árangri, sem öllum er nú ljós, þegar Bandaríkjamenn hafa tekið stjórnartaumana úr örvasa höndum leiðtoga Vestur-Evrópu.

Svo forustulaus er þessi heimshluti orðinn, að varla kemur upp sú ófriðarhætta innan landamæra Evrópu, að Bandaríkin verði ekki að koma til skjalanna. Nýjasta dæmið eru væringar Grikkja og Tyrkja á Eyjahafi. Bandaríkin urðu líka að sinna Írlandsdeilunni.

Sú deila er ofjarl Majors forsætisráðherra. Hans verður ekki minnzt í veraldarsögunni sem mannsins, sem leysti hana. Hans verður ekki einu sinni minnzt í veraldarsögunni sem mannsins, sem klúðraði lausn málsins. Hans verður alls ekki minnzt í veraldarsögunni.

Major er skýrasta dæmið um pólitískt volæði Evrópu. Hann stjórnar ekki, heldur rekst um ólgusjó skoðanakannana með það eina markmið að tóra til næsta dags.

Jónas Kristjánsson

DV