Skólamenn eiga leik

Greinar

Þegar skólamál færast heim í hérað í haust, aukast tækifæri skólamanna og annars áhugafólks um skólamál til að efla þau. Þessir aðilar eru mun áhrifameiri í sveitarstjórnum en í landsstjórninni og hafa í héraði mun meiri möguleika á að hafa áhrif á gang mála.

Skólamál eru dæmi um hagsmuni, sem eru afgangsstærð í landsstjórninni, sem snýst um hagsmuni atvinnugreina og stórfyrirtækja. Flestir þingmenn landsbyggðarinnar líta á sig sem eins konar fulltrúa efnahagslegra hagsmuna, sem yfirleitt tengjast atvinnulífi.

Þingmenn landsbyggðarinnar hafa helzt þau afskipti af skólamálum að reyna að fá fé til skólabygginga, meðal annars vegna tækifæranna, sem slíkt veitir byggingaverktökum í héraði. Þegar framkvæmdum sleppir, eru þeir ráðalausir um innihald skólastarfsins.

Skólamenn eru áhrifamenn í héraði og eru víða hlutfallslega margir í sveitarstjórnum. Þetta stafar af, að þeir eru hluti hinna svokölluðu talandi stétta, eru vanir að koma fram fyrir aðra til að flytja mál sitt skipulega og eru vanir því úr skólunum, að hlustað sé á þá.

Ýmis sveitarfélög landsbyggðarinnar eiga við atgervisflótta að stríða. Kennarar og skólastjórar eru í vaxandi mæli kallaðir til að leysa vandamál og verkefni í sveitarstjórnum, af því að þeir eru menntaðir. Þessari ábyrgð fylgja auðvitað áhrif á forgangsröðun mála.

Þegar skólamálin flytjast heim í hérað í haust og fara inn í forgangsröðun sveitarstjórnarmála, myndast ný tækifæri fyrir skólamenn staðarins til að koma þeim ofar í forgangsröðina. Þeir eru þar á heimavelli og munu án efa geta látið til sín taka margir hverjir.

Í sveitarstjórnum hafa skólamenn aðstöðu til að sannfæra ráðamenn um gildi þess, að börn og unglingar staðarins fái góða menntun. Sums staðar mun þeim takast að fá sveitarstjórnir til að leggja meira fé til kjara kennara og annars rekstrar skóla heldur en lögboðið er.

Þetta getur birzt í ýmsum myndum, til dæmis í staðaruppbótum og öðrum fríðindum handa kennurum, sem gengur vel að ná og halda athygli nemenda. Ennfremur í styrkjum til kennara til að taka þátt í námskeiðum til að draga nýja þekkingu heim í skólastarfið.

Af ýmsum slíkum ástæðum munu sum sveitarfélög soga til sín betri kennara og þannig leiða til aukins áhuga kennara á að gera sig samkeppnishæfa á kennaramarkaði. Þannig munu forustusveitarfélög ekki bara bæta sín skólamál, heldur bæta ástandið almennt í landinu.

Framfarir verða, þegar brotin er niður lognmolla jafnstöðunnar undir regnhlíf ríkisins og komið á samkeppni milli margra tuga sveitarfélaga. Markaðslögmálin munu halda innreið sína í skólakerfið og leysa þar úr læðingi orku, sem fólk vissi ekki, að væri þar til.

Samtök kennara hafa ekki áttað sig á hinum gerbreyttu valdahlutföllum á vinnumarkaði, þegar viðsemjandinn er ekki lengur einn einokunaraðili, heldur hundrað eða tvö hundruð aðilar. Í stað þess að stinga við fótum, ættu þessi samtök að reyna að knýja málið í gegn.

En þetta er ekki eina dæmið um, að fólk er svo íhaldssamt, að það getur ekki séð og vill ekki sjá tækifærin, sem opnast, þegar röskunin hefst og verður að óviðráðanlegri skriðu. Þetta truflar fólk á svipaðan hátt og markaðslögmálin gerðu í Rússlandi eftir áratuga stöðnun.

Eins og aðrir, sem búa við sovézka skipan, eiga kennarar erfitt með að sjá út fyrir staðnað kerfi, sem rammar líf þeirra í sovézku öryggi og sovézkri fátækt.

Jónas Kristjánsson

DV