Þolanlegt og skánandi

Greinar

Í nýju þjóðhagsspánni er sérstaklega tekið fram, að 2,4% hagvöxtur auðríkja heims í fyrra hafi valdið þeim vonbrigðum. Ekki er tekið neitt slíkt fram um 2% hagvöxt Íslands á sama ári, enda er alþekkt, að auðveldara er tala um vandamál annarra en sín eigin.

Í Vestur-Evrópu eru menn ekki ánægðir, ef árlegur hagvöxtur fer niður fyrir 3%. Í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Austur-Asíu setja menn mörkin við 4% og fjölyrða um stöðnunareinkenni Vestur-Evrópu. Ísland er utan þessa korts með árlegan hagvöxt upp á 2%.

Þjóðhagsstofnun spáir því að vísu núna, að íslenzkur hagvöxtur nýbyrjaðs árs muni aukast upp í evrópskan hægagang og verða 3%. Sú spá virðist raunhæf, af því að stórframkvæmdir eru að hefjast og mörg fyrirtæki hafa eflzt til fjárhagslegra áhlaupaverkefna.

Um nokkurra ára skeið hefur Ísland verið að dragast efnahagslega aftur úr nágrannalöndunum, enda finna menn það á sjálfum sér, að íslenzk lífskjör hafa staðið í stað og raunar versnað hjá sumum. Atvinnuleysi og landflótti hafa magnazt á þessum síðustu árum.

Einkum er það ungt fólk, sem flyzt af landi brott. Svo virðist sem fólk þurfi enga sérstaka þekkingu, aðeins viljann til að vinna, til að fá umsvifalaust atvinnu við fiskvinnslu í Danmörku, þar sem kaupið er tvöfalt það íslenzka og Íslendingar í góðu áliti sem starfsfólk.

Fiskvinnslufólkið í Danmörku dásamar mest að þurfa ekki að vinna nema venjulegan vinnudag til að hafa tekjur, sem áður fengust með botnlausri yfirvinnu á Íslandi. Það dásamar líka að geta fengið þak yfir höfuðið án þess að þurfa að setja allt líf sitt úr skorðum.

Ráðamenn Íslands og tryggustu kjósendur þeirra búa við annan raunveruleika en unga fólkið í landinu, sem dreymir um að flytjast af landi brott. Þeir hafa komið sér fyrir í lífinu, eiga skuldlítið húsnæði og hafa komið sér í störf, sem gefa meira af sér en kauptaxta.

Ráðamenn Íslands og tryggustu kjósendur þeirra eru sáttir við 2% hagvöxt, atvinnuleysi og landflótta. Þeir eiga landið og hirða af því arðinn. Unga fólkið lítur hins vegar misjöfnum augum á stöðu mála og möguleika sína. Og hluti þess hafnar fyrir sitt leyti ástandinu.

Það er dýrt að vera ungur á Íslandi. Matur kostar óeðlilega mikið, einkum sá, sem framleiddur er í landinu. Með innflutningshöftum og einokunarkerfi er árlega sóað milljörðum, sem nýtast hvorki til að bæta lífskjörin né til að auka hagvöxtinn upp í erlenda staðla.

Húsnæði er svo dýrt, að fólk getur ekki staðið undir því af venjulegum töxtum, nema tvær heilar fyrirvinnur séu í hverri fjölskyldu. Margar fjölskyldur eiga um sárt að binda vegna óvæntrar tekjuskerðingar, sem hefur komið í kjölfar húsnæðisöflunar og hvolft fjárhagnum.

Hinir eldri, sem eiga landið og hirða af því arðinn, yppta öxlum út af vandamálum af þessu tagi. Þeir halda áfram að kjósa stjórnmálaflokka til að halda uppi ríkisrekstri í landbúnaði og í bankastarfsemi og stunda ýmis önnur austantjalds-vinnubrögð í efnahagslífinu.

Með miðstýringu er arðurinn af Íslandi í senn lágmarkaður og veitt til gæludýra kerfisins. Þeir eru ánægðir, sem eiga aðild að miðstýringunni og sitja við áveituskurði hennar. Þeir ráða ferðinni og eru að gera landið óbyggilegt í hugum hluta af unga fólkinu í landinu.

Svo traust er kerfið í sessi, að Þjóðhagsstofnun telur ekki ástæðu til að hringja viðvörunarbjöllum í nýju spánni. Hún telur ástandið vera þolanlegt og skánandi.

Jónas Kristjánsson

DV